Jólalegar hráfæðiskúlur með „rommi“ og kókos

Jólaleg hráfæðiskúla.
Jólaleg hráfæðiskúla. shutterstock

„Þessar hrákúlur eru hættulega bragðgóðar. Þær er tilvaldar fyrir þá sem vilja fá sér eitthvað sætt yfir hátíðirnar en á sama tíma passa upp á línurnar og vellíðunina,“ segir Júlía Magnúsdóttir heilsumarkþjálfi og næringar- og lífsstílsráðgjafi hjá Lifðu til fulls.

Hrákúlur Júlíu eru sykurlausar og krefjast ekki baksturs í ofni sem gerir undirbúninginn afar einfaldan og fljótlegan. „Margir eru sammála því að aukið hráfæði í mataræði ýti undir þyngdartap, orku og almenna vellíðan,“ segir Júlía sem mælir með að fólk bæti meira hráfæði inn í mataræðið, sérstaklega yfir hátíðarnar. „Þetta ýtir undir meltinguna og hreinsun líkamans og minnkar líka sykurinntöku.“

„Kúlurnar slógu í gegn“

Júlía kveðst ekki hafa vitað hvernig viðbrögð hún myndi fá þegar hún bauð upp á hrákúlurnar í fyrsta skipti. „Kúlurnar slógu í gegn, fólk bað um ábót og vildi vita hvort uppskriftin kæmi nú ekki á vefsíðuna bráðum. Uppskriftinni hefur því ekki verið breytt síðan,“ segir Júlía sem heldur nú námskeið í hrákökugerð þar sem þátttakendur læra að útbúa einfalda og bragðgóða hráköku. Þátttakendur fá þá einnig að fræðast um æskileg sætuefni, innihaldsefni og samsetningu í hrákökum.

Síðasta námskeiðið verður haldið 15. desember á Akureyri. Nánari upplýsingar um námskeið Júlíu má finna inni á heimasíðu Lifðu til fulls.

Hráefni:

  • 3 dl kókosmjöl
  • 1 1/4 dl kakóduft
  • 1 dl döðlur, smátt saxaðar
  • 1 dl fíkjur, smátt saxaðar
  • 1 dl apríkósur, smátt saxaðar
  • 2 msk sítrónusafi
  • 1/3 dl kakósmjör, brætt yfir vatnsbaði
  • salt eftir smekk 

Aðferð:

Setjið allt hráefni í blandara eða matvinnsluvél. Mótið þá næst deigið í kúlur og veltið upp úr kókosflögum eða kakódufti. Geymið kúlurnar í frysti eða kæli. 

Mörgum þykja þessar hrákúlur gefa frá sér örlítið rommbragð en þetta er bragðið af fíkjunum. Ef þér þykir romm alls ekki gott má skipta fíkjum út fyrir rúsínur.

Berið fram og njótið!

Verulega girnilegt jólagóðgæti.
Verulega girnilegt jólagóðgæti. shutterstock
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert