Ítölsk baunasúpa

Einhverja bestu baunasúpu sem ég hef bragðað fékk ég  í Piemonte á Norður-Ítalíu á köldu janúarkvöldi árið 2012 í heimboði með feðgunum Paolo og Luca de Marchi. Þar ræddu þeir um endurreisn víngerðarinnar í Lessona og fjölskyldubúgarðsins Proprieta Sperina á meðan eiginkona Luca framreidd þessa undursamlegu baunasúpu. Hér er gerð tilraun til að endurskapa þá súpu. Hér eru notaðar Cannellini-baunir eða hvítar nýrnabaunir. Það er hægt að forsjóða þurrkaðar baunir eða nota niðursoðnar baunir.

  • 2 gulrætur
  • 2 sellerístönglar
  • 2 laukar
  • 4-5 hvítlauksgeirar
  • kryddvöndur (boquet garni) úr steinselju, timjan, rósmarín og lárviðarlaufi
  • 75 g pancetta (beikon)
  • 3 dósir Canelllini baunir
  • 1,5 lítri kjúklingasoð eða vatn og góður kjúklingakraftur
  • chiliflögur
  • salt og pipar

Saxið gulrætur, lauk og sellerí í litla teninga. Fínsaxið hvítlaukinn. Skerið pancetta niður í litla bita.

Hitið olíu í þykkum potti og steikið pancetta í nokkrar mínútur. Bætið þá lauk, sellerí og gulrótum saman við og mýkið í um 5 mínútur. Bætið þá hvítlauk út í og klípu af chiliflögum.

Útbúið kryddvönd með því að binda saman timjanstöngla, rósmarínstöngul og steinseljustöngul ásamt lárviðarlaufi.

Opnið baunadósirnar og hellið vökvanum frá. Bætið baununum út í pottinn. Hellið kjúklingasoðinu í pottinn og setjið kryddvöndinn út í. Látið malla á vægum hita í um 45 mínútur. Takið kryddvöndinn upp úr og hendið.

Til að fá þykkari súpu er hægt að taka um 2/3 af súpunni og mauka í matvínnsluvél. Bæta síðan aftur saman við restina í pottinum.

Berið súpuna fram með nýrifnum parmesan og góðri ólífuolíu sem er hellt yfir súpuna í skálinni.

Fleiri spennandi súpuuppskriftir finnið þið með því að smella hér og til að skoða fleiri ítalskar uppskriftir smellið þið hér.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert