Í veislu hjá mæðgum

Hildur Ársælsdóttir og Solla Eiríksdóttir.
Hildur Ársælsdóttir og Solla Eiríksdóttir. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Við mæðgur eigum það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á matargerð, grænmeti, lífrænni matjurtarækt og umhverfisvernd og við eigum afar gott með að vinna saman,“ segir Sólveig Eiríksdóttir, heilsumatarhönnuður og veitingakona, betur þekkt sem Solla í Gló, en hún og dóttir hennar Hildur Ársælsdóttir standa að baki spennandi og fallegu nýju matarbloggi sem ber hið viðeigandi heiti Mæðgurnar.

„Í fyrrasumar ræddum við okkar á milli að okkur langaði til að hittast oftar og gera eitthvað skemmtilegt matarkyns saman. Þannig fæddist hugmyndin að mæðgnablogginu, sem varð að veruleika síðastliðið haust. Við erum ótrúlega þakklátar fyrir frábærar og hvetjandi viðtökur. Þetta er með því skemmtilegra sem við gerum, við fáum útrás fyrir sameiginleg áhugamál okkar í gegnum bloggið og eyðum meiri tíma saman, sem er afar dýrmætt.“

Hollt veganesti

Sólveig bendir á að hún og dóttirin hafi báðar kynnst hollum, næringarríkum og hreinum mat í æsku og þar með hafi línan í rauninni verið lögð. „Við bjuggum í mörg ár heima hjá foreldrum mínum, Eiríki og Hildi. Þau hafa stundað lífræna matjurtarækt til heimilisins í hartnær 60 ár og því ólumst við mæðgur báðar upp við fallegar hugsjónir og fullt af fersku grænmeti. Afi Eiríkur og amma Hildur eru fyrirmyndirnar okkar beggja og ástæðan fyrir því að lífræn ræktun er sú aðferð sem okkur þykir eðlilegust við ræktun matvæla, bæði hvað snýr að okkur sjálfum og jörðinni okkar.“

Þær mæðgur eru sammála um að matarblogg sé orðið að sérstöku listformi, þar sem fallegar myndir, góðar uppskriftir og frásagnarlist fléttist saman, og þar séu þær á heimavelli. „Við mamma eigum það líka sameiginlegt að hafa frá unga aldri haft áhuga á listum,“ segir Hildur. „Mamma lærði myndlist, textíl og hannyrðir og ég lagði stund á tónlist. Hún hefur mikla þekkingu á matreiðslu heilsu- og hráfæðis og ég er með BS-gráðu í næringarfræði. Við höfum báðar mjög gaman af því að framreiða fallegan mat og stilla honum upp og elskum fallegar matarmyndir. Því njótum við þess báðar að blogga um mat og deila hugmyndum með öðru mataráhugafólki.“

Dæturnar fermdar

Talið berst að veislu- og fjölskylduhefðum og fermingu Hildar fyrir 20 árum. „Við héldum fallegt fjölskylduboð heima hjá foreldrum mínum og buðum upp á frekar hefðbundnar veitingar, þar sem þó var notað hollara hráefni en almennt tíðkaðist,“ segir Sólveig. „Til dæmis vorum við með pönnukökur bakaðar úr heilhveiti, bláberjaköku þar sem svampbotninn var sömuleiðis úr heilhveiti, heimabakað brauð og hummus svo eitthvað sé nefnt. Á þessum tíma þótti þetta vera hálfgerð heilsuveisla.

Fjórtán árum síðar var fermingarveisla númer tvö á heimilinu. Þá bauð ég upp á litlar spínatbökur, hýðishrísgrjóna-sushi, hráfæðispitsur, hráfæðis-sushi, kúrbítsrúllur, hráfæðiskökur og fleiri skemmtilega hollustubita. Ég hef sjaldan fengið jafnjákvæð viðbrögð og í þeirri veislu. Í kjölfarið rigndi yfir mig fyrirspurnum þar sem veislugestir báðu um uppskriftir að trakteringunum. Ég útbjó þá uppskriftaskjal í tölvunni og sendi pósta á vini og vandamenn, sem voru að fara að ferma eða halda minni veislur. Vinsældir „hollusturéttanna“ sýndu svart á hvítu að það hafði orðið alvöru breyting á matarvenjum landans, sem var auðvitað ákaflega gleðilegt.“

Yngstu gestirnir

Aðspurðar segja Hildur og Sólveig það alltaf vera áskorun að útbúa hollan og góðan bita fyrir yngstu veislugestina. „Reynslan hefur sýnt okkur að einfaldir réttir eins og litlar speltpitsur með lífrænni tómatsósu eru mjög ofarlega á vinsældalistanum hjá smáfólkinu. Sömuleiðis slær það alltaf í gegn að hafa nóg af niðurskornu grænmeti og ávöxtum.

Ef við værum að halda saman fermingarveislu núna myndum við bjóða til miðdagsveislu, með smáréttum og sætum bitum. Við myndum leggja áherslu á litríkan, fallegan og ferskan mat, hafa fullt af gómsætum litlum bitum, nóg af grænmeti og ávöxtum og ekki má gleyma fermingarkökunni. Markmiðið væri ekki að halda „heilsuveislu“, heldur bjóða upp á girnilegan veislumat úr góðu hráefni. Við myndum útbúa rétti sem okkur þykja góðir. Veislumatur á þeim nótum bragðast ekki bara vel, heldur líður manni líka vel af honum. Það er náttúrlega bara jákvætt.“

Kaka úr baunum

Mæðgunum finnst báðum mikilvægt að úrvalið í fermingarveislunni sé þannig að allir fái eitthvað við sitt hæfi, líka þeir sem séu með ofnæmi, t.d. fyrir eggjum, mjólk, glúteni eða hnetum. „Svo pössum við að sjálfsögðu alltaf að bjóða upp á eitthvað girnilegt fyrir grænmetisætur, en það vill stundum gleymast í veislum.

Loks er það sjálf fermingarkakan, hún þarf að slá í gegn. Við myndum útbúa dásamlega brownies-köku þar sem aðaluppistaðan er svartar baunir. Brownies-bitunum röðum við upp í turn, til að fá svipaða stemningu og með kransakökunni. Drykkir í boði væru lífrænt kaffi, te, sódavatn, ávaxtasafar og lífrænir gosdrykkir. Á þessum árstíma er til nóg af fallegum blómum og laukum og það er um að gera að nýta sér það til að skapa vorlega og bjarta stemningu. Að okkar mati er engin veisla án blóma.“

Fermingarveisla mæðgnanna

Kínóasalat með granateplum og spergilkáli

250 g soðið kínóa

1 granatepli, kjarnarnir notaðir

200 g spergilkál, skorið í munnbita

100 g pekanhnetur, ristaðar og grófsaxaðar

100 g kirsuberjatómatar

50 g mórber

½ agúrka, skorin í sneiðar og steinhreinsuð

¼ rauðlaukur, skorinn í mjög þunnar sneiðar og lagður í nýkreistan appelsínusafa í 15 mín.

2 msk. límónuhýði

handfylli af ferskum kóríander

handfylli af myntu eða basil

handfylli af steinselju

Allt sett í skál og blandað létt saman.

Dressing:

safi úr 1 límónu

rifið hýði af 1 límónu

2 msk. ólífuolía

1 msk. sinnep

1 daðla, smátt söxuð

smá himalaya/sjávarsalt

Allt sett í krukku og hrist saman og hellt yfir kínóasalatið.

Litlar grænkáls- og kínóabökur

2 b. soðið kínóa

4 egg, þeytt saman

1 tsk. madrass-karrí

½ tsk. cuminduft

½ tsk. sjávarsalt

2 vorlaukar, smátt saxaðir

1 b. hreinn fetaostur, mulinn

1 hvítlauksrif, pressað

1 b. smátt saxað grænkál

½ b. blómkál

¾ b. möndlumjöl

Hitið ofninn í 190°C. Blandið öllu saman í skál og látið standa í nokkrar mínútur. Smyrjið lítil muffinsform, setjið 1 strimil af bökunarpappír í hvert og eitt form svo auðvelt sé að ná bökunum upp úr þeim. Setjið blönduna í formin og bakið í 25-30 mín. Takið út og látið standa í 5-10 mín. áður en þið fjarlægið bökurnar. Þessar eru góðar bæði heitar og kaldar.

Spæsý kasjúmæjó

2 dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2 klst.

1 dl vatn

3 döðlur

2 msk. sítrónusafi

1-2 msk. sambal oelek eða annað chili-mauk

1 hvítlauksrif

1 tsk. laukduft

smá himalaya/sjávarsalt

nýmalaður svartur pipar

Allt sett í blandara og blandað vel þangað til laust við alla kekki.

Litlar sætkartöflusnittur

með guacamole

2 sætar kartöflur, skornar í 1 cm þykkar sneiðar (ferkantaðar)

Penslaðar með smá olíu, saltaðar með smá sjávarsaltflögum og paprikudufti, bakaðar í ofni við 175°C í 20-25 mín. Snúið sneiðunum við eftir 10 mín. og klárið að baka þar til þær verða gylltar.

Setjið 1 kúfaða teskeið af guacamole ofan á hverja sætkartöflusneið.

Guacamole

2 avókadó, afhýdd og skorin í bita

2 msk. rauðlaukur, smátt saxaður (má nota vorlauk)

2 msk. ferskur kóríander, saxaður

1 msk. límónusafi

1 hvítlauksrif, pressað

½ tsk. salt

smá nýmalaður svartur pipar

Stappið avókadó, hrærið saman við rauðlauk, kóríander, límónusafa og hvítlauk og kryddið með smá salti og nýmöluðum svörtum pipar.

Grænmetisspagettí

með pistasíupestó

1 rófa, afhýdd og breytt í spagettí með julienne peeler

1-2 gulrætur, breytt í spagettí með julienne peeler

1 rauðrófa, afhýdd og breytt í spagettí með julienne peeler

1 lítill kúrbítur, breytt í spagettí með julienne peeler

2 msk. sítrónusafi

granateplakjarnar

Byrjið á að setja „spagettíið“ í skál, veltið því upp úr sítrónusafa og látið standa smástund. Dreifið því síðan í litlar krukkur, setjið pestóslettu ofan á og toppið með granateplakjörnum.

Pistasíupestó

40 g pistasíuhnetur

30 g kasjúhnetur (gott að rista þær)

1 búnt basil

1-2 msk. sítrónusafi

1 msk. næringarger

1 hvítlauksrif, pressað

smá himalayasalt

1 dl kaldpressuð ólífuolía

Setjið allt í matvinnsluvél nema ólífuolíu og blandið í smástund, ekki of lengi svo þetta verði ekki að mauki. Hrærið olíunni út í með gaffli í lokin. Pestóið geymist í rúma viku í kæli í loftþéttu íláti.

Litlar pítsur

Botn:

250 g gróft spelt

3 tsk. vínsteinslyftiduft

½ tsk. sjávarsalt

1-2 msk. kaldpressuð jómfrúarólífuolía

ca. 130 ml heitt vatn

Blandið þurrefnunum saman í skál, eða í matvinnslu- eða hrærivél, það er mun auðveldara, olíunni bætt út í og allt hnoðað saman. Deigið er tilbúið þegar það myndar kúlu. Stráið smá spelti á borðið og fletjið deigið út frekar þunnt, takið svo glas í þeirri stærð sem þið viljið hafa pitsurnar og skerið út litla hringlaga botna. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og botnana þar ofan á og forbakið við 200°C í 3-4 mín., takið plötuna úr ofninum og leggið rakt viskustykki yfir svo botnarnir harðni ekki.

Sósa:

4 msk. tómatmauk

2 dl maukaðir tómatar

1-2 hvítlauksrif

1 tsk. óreganó

rifinn ostur að eigin vali, t.d. vegan dayia ostur eða lífrænn cheddar

Sósu og osti dreift jafnt yfir pitsubotnana, plötunni stungið aftur inn í ofn og pitsurnar bakaðar þar til osturinn er bráðnaður (örfáar mínútur).

Brownies-fermingarkaka

(Ath. þetta er einföld uppskrift, til þess að útbúa brownies-turn þarf að tvöfalda hana)

400 g soðnar svartar baunir, skolaðar og þerraðar

350 g kókospálmasykur eða hrásykur

¾ dl kókosolía

60 g kakóduft

50 g möndlumjöl (eða góð glútenlaus mjölblanda fyrir þá sem eru með hnetuofnæmi)

1 tsk. vínsteinslyftiduft

1 tsk. vanilla

¼ tsk. sjávarsaltflögur

1 dl chia-fræ, möluð

1 ½ dl vatn

150-200 g dökkt 70% súkkulaði, saxað

Byrjið á að hræra chia-fræin út í vatn og látið þau draga í sig vökvann. Á meðan setjið þið svörtu baunirnar í matvinnsluvél og maukið. Bætið síðan öllu nema súkkulaðinu út í, líka chia-blöndunni, og blandið saman í deig með því að nota pulse-takkann. Þegar þetta er orðið að deigi er súkkulaðinu loks bætt saman við. Setjið bökunarpappír í ferkantað form og hellið deiginu í það, bakið við 175°C í 50-60 mín. Ath.: eftir 20 mín. er álpappír settur yfir kökuna í ofninum til þess að hún brenni ekki, hann aftur fjarlægður 20 mín. síðar og kökunni leyft að klára að bakast án álpappírs.

Fjölskyldupönnukökur

Í hverri stórfjölskyldu er a.m.k. einn pönnukökumeistari. Finnið meistarann og fáið hann til að baka pönnukökur fyrir veisluna, flestir taka mjög vel í það. Í okkar fjölskyldu er það amma Hildur sem bakar dásamlegar, grófar pönnukökur úr spelti. Allir elska pönnukökurnar hennar ömmu.

Mæðgurnar blogga saman.
Mæðgurnar blogga saman. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert