Ljúffeng og ofurholl núðlusúpa mæðgnanna

Súpan er svo sannarlega falleg á að líta.
Súpan er svo sannarlega falleg á að líta. Skjáskot maedgurnar.is

Solla Eiríksdóttir og dóttir hennar Hildur Ársælsdóttir halda úti uppskrifasíðunni Mæðgurnar, þar sem þær deila hollum og góðum uppskriftum með lesendum.

Á dögunum skelltu þær í ljúffenga kelpnúðlusúpu, sem ætti engan að svíkja.

„Miso súpa var algeng hversdagsmáltíð hjá okkur mæðgum hér áður, þegar sú yngri var barn og sú eldri á kafi í makróbíótískum fræðum. Hjá okkur er því alltaf ákveðin nostalgía fólgin í því að nota miso í matargerð, enda er bragðið af miso ákaflega notalegt. Miso er gerjaður kraftur, sem er mikið notaður í hefðbundinni japanskri matargerð, bæði sem grunnur í súpur og sem krydd í aðra rétti,“ segir á heimasíðu mæðgnanna.

„Í þetta sinn langar okkur að deila með ykkur uppskrift að kelpnúðlusúpu með miso og Thai ívafi. Grunnurinn er miso-seyði sem við söxum fullt fullt af ferskum kryddjurtum út í, ásamt blaðlauk, fallegu grænmeti og spírum. Að lokum bætast við gott avókadó og kelpnúðlur til að bíta í.“

Svona hljómar uppskrift mæðgnanna:

Seyðið

750ml vatn

1 msk miso

1 msk grænmetiskraftur

1 tsk sjávarsaltflögur

½ tsk thai curry paste

½ tsk hvítlaukur

¼ tsk fennelfræ

1 sítrónugrasstöngull

2 cm engiferrót í sneiðum

3 límónulauf (ef þið fáið þau)

1-2 döðlur, saxaðar

chili eftir smekk (bara fyrir þá sem vilja sterkari súpu)

Setjið allt í pott, látið suðuna koma upp og látið malla við lágan hita í 20-30 mín. Bragðið til með sjávarsalti.

Í skálina

½ pk kelpnúðlur

2 avókadó (1 í hvora skál)

nokkrar radísur

2 dl rómaneskóbitar (eða spergilkál/blómkál)

1 gulrót í þunnum ræmum

1 dl af ferskum söxuðum kryddjurtum (kóríander, minta og thaibasil)

2-3 vorlaukar

alls konar spírur

  1. Skerið grænmetið í passlega bita.
  2. Fyrir þá sem vilja má léttsteikja rómaneskóið á pönnu, en þarf ekki
  3. Saxið kryddjurtirnar
  4. Skerið avókadó í teninga
  5. Setjið nú kelpnúðlurnar í skálina ásamt grænmetinu og kryddjurtunum
  6. Hellið seyðinu yfir
  7. Skreytið með enn fleiri kryddjurtum og spírum
  8. Njótið!

Pistilinn í heild sinni má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert