Vegan-skyndibiti ryður sér til rúms

Með tilkomu „vegan“-eggja geta nú allir gætt sér á hrærðum …
Með tilkomu „vegan“-eggja geta nú allir gætt sér á hrærðum eggjum. Ljósmynd/Getty images

Vegan-lífsstíll hefur verið að ryðja sér til rúms hérlendis og annars staðar í heiminum. Nú um helgina fer til að mynda fram Vegan-festival á vegum Samtaka grænmetisæta á Íslandi.

Veganismi er talinn vera hollur og heilbrigður lífsstíll og segja margir að þeir finni fyrir aukinni orku, betri húð og jafnvel þyngdarlosi eftir að þeir urðu vegan. Veganistar eru þó allir mannlegir og eiga það til að þyrsta í óhollan skyndbita.

Veganismi er orðinn mun útbreiddari nú en hann var áður og til að svara kalli neytenda er nú hægt að fá alls konar vegan-skyndibita eins og kleinuhringi, pítsu, hamborgara og fleira.

„Nú er hægt að fá fullt af óhollum mat,“ segir Jessica McCully sem stödd er á vegan-festivali í Los Angeles. McCully er að borða taco með vegan-kjöti sem líkist helst kjúklingi þegar blaðamaður AFP ræðir við hana. Hún hefur verið vegan í tvo mánuði og segist strax finna muninn, hún er mun hamingjusamari og orkumeiri.

Vegan-ís frá Mæðgunum.
Vegan-ís frá Mæðgunum. Ljósmynd/Mæðgurnar

Samkvæmt rannsókn framkvæmdri af Harris Interactive skilgreina á milli sjö og átta milljónir Bandaríkjamanna sig sem vegan en talan er sérstaklega há í Kaliforníu. Annie Jubb, ráðgjafi um vegan-lífsstíl, segir marga tileinka sér lífsstílinn vegna heilsufarsvandamála en hjá flestum sé velferð dýra lykilatriði þess að þeir gerist vegan.

Þá segir hún það alls ekki vera þannig að allir veganistar lifi heilbrigðum lífsstíl heldur geti vegan mataræðið verið afar óhollt til dæmis hjá þeim sem borði mikið af djúpsteiktum mat. „Sumir borða sojahamborgara og sojabeikon þrisvar sinnum í viku, það er ekki hollt,“ segir Jubb.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert