c

Pistlar:

7. mars 2015 kl. 13:09

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ferðamannaeyjar

Sá mikli vöxtur sem verið hefur í ferðaþjónustunni síðustu ár skýrir stóran hluta af þeim hagvexti sem mælst hefur hér á landi síðan hagkerfið byrjaði að taka við sér árið 2010. Það er áætlun Greiningar Íslandsbanka að a.m.k. þriðjung hagvaxtarins frá árinu 2010 megi rekja til ferðaþjónustunnar. Ferðaþjónustan hefur þannig átt stóran þátt í því endurreisnarstarfi sem átt hefur sér stað á undanförnum árum segir í nýrri skýrslu greiningardeildarinnar.

Það má rekja um 45% af fjölgun starfandi á tímabilinu til ferðaþjónustunnar. Eru þá ótaldar tengdar greinar og hlutfallið því eflaust vanmetið. Vöxtur í ferðaþjónustunni hefur því átt ríkan þátt í að ná niður atvinnuleysi hér á landi. Greining Íslandsbanka áætlar að ferðaþjónustan muni afla 342 milljarða króna í gjaldeyristekjur á árinu 2015 eða sem nemur 28,9% af áætluðum gjaldeyristekjum af útflutningi vöru og þjónustu á árinu. Til samanburðar var þessi hlutdeild 23,8% árið 2012 og 19,8% árið 2009.

Þetta sýnir glögglega mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir efnahag landsmanna og ekkert sem bendir til annars en að það eigi eftir að aukast. Vöxturinn er með ólíkindum og virðist ekkert slá á hlutfallslegan vöxt og með sama áframhaldi má ætla að tveggja milljóna ferðamannamarkinu verði náð fyrr en áður hefur verið talið, jafnvel 2017. Það er þremur árum fyrr en bjartsýnustu spár sögðu til um fyrir nokkrum misserum.

Ekki er ástæða til annars en að fagna þessari þróun. Störfum fjölgar, mikilvægur gjaldeyrir streymir inn í landið og mannlíf og menning eflist á ýmsum sviðum. Að sjálfsögðu er þetta ekki án áskoranna. Á það hefur verið bent áður í pistlum hér að ferðmennska breytir menningu landa meira en önnur starfsemi. Þá voru dæmi sótt til annarar vinsællar ferðamannaeyju, Mæjorka. Nokkur álver til eða frá hefur lítil áhrif á menninguna en það gerir ein milljón ferðamanna. Hér er ekki mælt með því að tálma þróunin en líklega verða Íslendingar aðeins að hugsa sinn gang.2015-02-28 15.03.20

Paradísareyjan Tenerife

Fyrir stuttu heimsótti pistlaskrifari ferðamannaeyjuna Tenerife í fyrsta sinn. Þangað er 5 tíma ferðalag beint í suður en Tenerife er sannkölluð paradísareyja, bæði að vetri sem sumri. Bærilegur hiti á veturna og ekki of hlýtt á sumrin. Staðsetningin tryggir loftslagið og náttúran forvitnileg. Eyjan er um 2% af stærð Íslands en þangað koma um 5 milljónir ferðamanna árlega eða um helmingur þeirra sem heimsækja Kanaríeyjar. Nú er mikil umræða um að eyjan sé að verða uppseld. Ekki er vilji til að byggja hótel í háhýsastíl og takmörkun er nú á frekari hótelbyggingar. Helst að fimm stjörnu hótel séu leyfð og vilji til að efla frekar ráðstefnuferðamennsku. Ferðaþjónustan stendur undir um 80% af landsframleiðslu Tenerife og er allt umlykjandi. Það er ljóst að þeir sem fjárfestu í hótelum eða landi nálægt Amerísku ströndinni fyrir nokkrum áratugum (Playa de las Americas) hafa uppskorið ríkulega.

Eyjan og menning hennar hefur upp á margt að bjóða en það er erfitt að varðveita það þegar þarf að þjónusta svo mörgum. Ný menning tekur við og miðar við að falla sem flestum í geð. Fyrir vikið verða matsölustaðir og afþreying öll með líku sniði. Engin ástæða er til að ætla að það eigi fyrir okkur Íslendingum að liggja en það er samt áminning um að varðveita okkar menningu og menningaminjar. Þrátt fyrir allt vilja allir ferðamenn kynnast einhverju sem veitir sanna og áhrifaríka upplifun.  

Það að ferðast og upplifa eitthvað nýtt er að verða sterkasta þörf nútímamannsins. Til að fullnægja þessari þörf ver fólk stöðugt hærra hlutfalli tekna sinna í ferðalög. Það er því engin furða að ferðamennska eflist hér á landi sem annars staðar. Því ber að fagna en vandi fylgir vegsemd hverri.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.