c

Pistlar:

20. október 2016 kl. 21:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Háskinn í hagkerfinu

Í síðasta pistli ræddi ég um stöðugleikann, einfaldlega af því að hann er ekki fyrirferðamikill í umræðu dagsins, nú þessa síðustu daga fyrir kosningar. Það er auðvitað umhugsunarvert að þegar við Íslendingar eyjum hann loksins þá virðumst við taka honum sem sjálfgefnum. En auðvitað er ekki svo, handan við hornið eru nýir háskar í hagkerfinu. Háskar sem geta reynst okkur erfiðir ef við búum ekki í haginn og undirbúum okkur, meðal annars með því að reyna að umbreyta þeirri efnahagslegu velgengni sem við njótum nú í eins varanlegt ástand og unnt er. Og um leið ráðast í nauðsynlegar kerfisumbætur.2016-10-20 17.20.03

Þráinn Eggertsson hagfræðingur minnti eitt sinn á að hagkerfi séu í eðli sínu háskaleg. Ekki sé hægt að ganga að neinu vísu og erfitt sé að spá fyrir um hvað er framundan. Það eru orð að sönnu. Margt bendir þó til þess að Íslendingar geti verið bjartsýnir nú í lok árs 2016 en vissulega eru margvíslegar hættur framundan. Að þessu sinni eru þær góðæristengdar. Á slíkum stundum getur hagstjórn orðið erfið hér á landi og hefur líklega alltaf verið það. Við sjáum það af gríðarlegum kosningaloforðum þessa daganna. - Sem Viðskiptaráð Íslands metur á tæplega 200 milljarða króna. Stjórn margra flokka, þar sem hver og einn þarf að efna sín útgjaldaloforð, myndi að öllum líkindum fara langt með að eyðileggja stöðugleikann. Hugsanlega sjá menn ofsjónum yfir einstökum árangri í fjármálum ríkisins á þessu ári en nú stefnir í 408 milljarða afgang á þessu ári. Það er hærri fjárhæð en allur halli eftirhrunsáranna. Það er auðveldara að tala þegar sjóðir ríkisins standa vel en þegar þeir eru tómir.

Djúp efnahagsleg lægð framundan?

Vilhjálmur Egilsson, hagfræðingur, fyrrverandi alþingismaður og nú rektor á Bifröst, sagði í viðtali við sjónvarpsstöðina Hringbraut fyrir stuttu að ekkert komi í veg fyrir djúpa efnahagslega lægð innan fimm ára. Þetta hafði hann áður sagt í aðsendri grein hjá Skessuhorni. Hann sagðist telja að líklegt að hún skelli á okkur á næsta kjörtímabili. Vilhjálmur segi að síðustu ár höfum við vísvitandi hlaðið í bálköstinn. Dómur Vilhjálms er þungur. Hann segir okkur hafa vitandi vits lagt af stað í öngstræti sem við eigum bara eina leið úr og það sé með skell. Vilhjálmur er eldri en tvævetur, sjálfsagt segir hann þetta núna þegar loforðin streyma fram í aðdraganda kosninga. Hann telur að Íslendingar eigi eftir að sjá launabóluna springa innan tveggja ára og ekkert lát sé á launahækkunum umfram það sem atvinnulífið í raun rís undir. Því sé hægt að byrja að telja niður í að bólan springi.

Kerfisgallar

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði á fundi í Hörpu í vikunni að alvarlegasti kerfisgallinn í hagkerfinu nú lyti að kjaraviðræðum. Það væri ekki unnt að innleiða þau vinnubrögð sem tryggðu stöðugleika og uppbrot Salek-samstarfsins er kannski það alvarlegasta sem hefur gerst þar. Þessar áhyggjur varðandi stöðu á vinnumarkaði eru í takt við það sem Vilhjálmur sagði í áðurnefndu viðtali: „Besti mælikvarðinn á hana er að ársbreyting launavísitölu hefur nú sex mánuði í röð verið í tveggja stafa tölu og horfur á því að þessi hækkunarferill haldi eitthvað áfram. Undanfarin ár hefur hinn mikli uppgangur ferðaþjónustunnar leitt hagvöxtinn og hann verið það sem kallað er útflutningsdrifinn. Nú eru tölurnar frá Hagstofunni farnar að snúast hratt við og öll merki farin að benda til þess að hagvöxturinn verði í síauknum mæli neysludrifinn.“

Hátt vaxtastig og launaskrið

Ástandið nú er betra en sú lýsing sem Vilhjálmur dregur upp þó hægt sé að taka undir varnaðarorð hans. Undanfarið höfum við séð að einstaklingar hafa greitt upp lán í stórum stíl og þó að einkaneysla hafi vissulega tekið við sér þá sjáum við ekki mikla útgjaldaaukningu hjá heimilum og fyrirtækjum. Vaxtastigið í landinu er ennþá hátt og færa má rök fyrir því að Seðlabankinn hafi yfirskotið stýrivexti um 100 til 150 punkta síðasta árið. Líklega er það varfærið mat.

Peningastefnan er eitt af því sem þarf að leggja undir ef ráðist verður í kerfisbreytingar. Ekki til þess að leita að sökunautum heldur til þess að taka á þeim undirliggjandi vanda hún hefur skapað. Seðlabankinn á ekki að verja peningastefnu innan þjóðhagsvarúðartækja til langframa. Í dag birti ASÍ hagspá sína. Þó hún sé bjartsýn í flestu þá telja þeir  sig sjá hættumerki:

„Víða má sjá merki um ofhitnun á vinnumarkaði og fyrirtæki finna í vaxandi mæli fyrir skorti á starfsfólki. Aðfluttir starfsmenn hafa að einhverju leyti slegið á spennu en vísbendingar eru um að fjölgun starfa kunni að vera vanmetin sökum aukins fjölda tímabundinna erlendra starfsmanna. Hætta er á að aukin spenna geti í vaxandi mæli ýtt undir launaskrið.” Það verður að skoðast í ljósi þeirra orða sem hér voru látin falla fyrr um kerfisgalla á vinnumarkaði. Líklega verða þeir hagkerfinu erfiðastir þegar upp er staðið.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.