Fór í opið samband eftir 18 ára hjónaband

„Ég tók eftir því hvernig hormónarnir fóru á fullt í …
„Ég tók eftir því hvernig hormónarnir fóru á fullt í hvert sinn sem ég svaf hjá nýjum mönnum. Mig langaði að gefa þeim að borða, passa þá, vera með þeim." Skjáskot af TheStir

Hana hafði alltaf langað í barn og hún hafði verið gift sama manninum í 18 ár þegar hann allt í einu tilkynnti að nú vildi hann láta klippa hjá sér, með öðrum orðum fara í ófrjósemisaðgerð.

Áfallið varð mikið fyrir Robin Rinaldi sem þá var komin fast að fertugu. Hún íhugaði skilnað en ákvað samt að bjóða eiginmanninum upp á afarkosti, annaðhvort yrðu þau í opnu sambandi í eitt ár eða þau myndu skilja. 

Eiginmaðurinn valdi fyrri kostinn og næstu 12 mánuðina notaði Rinaldi til að fá útrás fyrir óra sína sem tengdust kynlífi með karlmönnum, og konum sem hún þekkti lítið sem ekki neitt. En hvaða áhrif hafði þetta svo á hjónabandið? Var hægt að bjarga því með þessum hætti? 

Þegar það rann upp fyrir Rinaldi að hún yrði líklegast aldrei móðir langaði hana til að fá útrás fyrir óra sem höfðu blundað í henni árum saman. Hún leigði íbúð og setti auglýsingu á einkamálasíðu þar sem hún kallaði eftir erótískum ævintýrum með karlmönnum á aldrinum 35 -50 ára. Sá fyrsti sem hún prófaði var hinsvegar aðeins 23 ára. „Og um leið og þetta var búið þá sendi ég manninum mínum sms,“ segir Rinaldi í viðtali við TheStir en Rinaldi gaf út bók um þetta ævintýra ár. Bók sem hún kallar The Wild Oats Project og undirtitillinn er One womans midlife quest for passion at any cost. 

Tilgangurinn helgaði meðalið

Parið gerði með sér samkomulag. Það sem þú veist ekki getur ekki sært þig. Þau komu sér líka saman um mjög einfaldar relgur. 

1. Öruggt kynlíf
2. Ekki fara í alvarlegt samband við neinn
3. Ekki sofa hjá vinum eða kunningjum 

Bæði voru nokkuð fljót að brjóta reglur eitt og tvö en á fjórða mánuði ævintýramennskunnar hitti Rinaldi mann sem kom henni svo svakalega til að henni leið eins og hún væri hreinlega að verða ástfangin. Þegar það benti flest til þess að báðum liði eins ákváðu þau að hætta að hittast þar sem hinn helgi tilgangur opna sambandsins hennar var jú að bjarga hjónabandinu. Ekki finna sér nýjan mann. 

Kærleikshormón kvenna eru blessun og böl

Rinaldi segist þó hafa orðið hrifin af hverjum einasta manni sem hún svaf hjá enda bölið og blessunin oxytocin hluti af hormónabúskap kvenna sem gerir þær oft hrifnari af rekkjunautum sínum (og tilfinningalega tryggari) meðan karlar sleppa. 

Hún segist sannarlega hafa upplifað þetta enda hafi hún orðið hrifin af næstum öllum sem hún svaf hjá. 

„Ég tók eftir því hvernig hormónarnir fóru á fullt í hvert sinn sem ég svaf hjá nýjum mönnum. Mig langaði að gefa þeim að borða, passa þá, vera með þeim. Ég tók eftir því að þarna var oxytocin komið á fullt... en ef maður bara gefur þessu gaum, og hittir næsta mann, og finnur sömu tilfinningar aftur þá hugsarðu bara vá, þetta snýst ekkert um manninn, þetta eru oxytocin-hormónin mín að störfum. Þú verður ástfangin af öllu og öllum.“

Staðráðin í að stunda skuldbindingalaust kynlíf

Þar sem Rinaldi var staðráðin í að stunda skuldbindingalaust kynlíf yfirgaf hún alltaf mennina sem hún var byrjuð að hitta og næsti tók við. Og það voru ekki bara karlar sem hún stundaði kynlíf með, Rinaldi gerði líka tilraunir með konum. 

En eftir tólf mánuði fór nýjabrumið af og þegar hún var í miðju kynlífi með guðdómlega fallegri konu áttaði Rinaldi sig á því að þetta var komið gott. Verkefninu var lokið. Hún áttaði sig jafnframt á því að hún vildi að samband sitt myndi ganga vel og sneri því aftur heim á bæ. „Þetta var komið gott,“ segir hún. 

Óvænt niðurstaða úr tilrauninni

Þegar hún flutti aftur inn til eiginmannsins tóku við meiri erfiðleikar en hana hafði grunað. Í fyrsta lagi rann það upp fyrir henni að eiginmaðurinn hafði aldrei staðið við sinn hluta samningsins. Hann hafði reyndar, frá upphafi, aðallega verið með einni konu sem var orðin kærastan hans. 

„Ég áttaði mig á því hversu sérstakt samband þeirra var og að hjónabandi mínu stafaði margfalt meiri ógn af slíku sambandi en lauslátu og skuldbindingarlausu kynlífi. Ég fór í mikið uppnám og varð afbrýðisöm. Ég varð meira að segja ofbeldishneigð. Það má segja að þetta hafi verið ákveðinn botn í mínu lífi,“ segir hún. 

Þegar Alden, maðurinn sem hafði hrifið hana upp úr skónum á fjórða mánuði tilraunatímabilsins hafði svo samband með tölvupósti og spurði hvort hún væri enn gift urðu aftur breytingar á högum hennar. 

Leynimakkið var mest skemmandi

Með leyfi eiginmannsins fór hún að hitta fyrrverandi ástmann sinn í formlegum drykk. Það stefnumót þróaðist mjög hratt út í leynimakk en það var nákvæmlega það sem Rinaldi vildi fyrir alla muni forðast. Upprunalegi tilgangurinn með opna sambandinu var einmitt að forðast framhjáhald, lygar og leynimakk. 

„Það er hræðilega slæmt. Manni er illt bæði í hjartanu og líkamanum. Ég myndi aldrei gera þetta aftur. Þetta er það eina sem ég sé raunverulega eftir.“

Átta vikum seinna gerði hún sér ljóst að hún þurfti að velja á milli Alden og eiginmannsins. Og það er ekki að því að spyrja. 

Nú fimm árum seinna eru þau Alden enn saman og það í harðlokuðu sambandi. Spurð að því hvort þau glími ekki við vandamál sem tengjast trausti segir hún vissulega að svo sé en að þau séu dugleg að vinna á því. Hún áttar sig þó líka á því að það er ekki hægt að setja eilífðar stimpil á neitt samband, að minnsta kosti ekki að svo stöddu. 

Hvað eiginmanninn Scott varðar þá hefur hann fundið sér nýja konu. 

Ekki lengi að fá á sig druslustimpil

Eins og fyrr segir gaf Rinaldi reynslusöguna út á bók sem hefur vakið allskonar viðbrögð. Merkilegast fannst henni þó að upplifa að fá gríðarlega mikið „slut shaming“ eða druslustimpil,  þá sér í lagi frá karlmönnum. 

Slut shaming dugar ekki einu sinni til að lýsa því sem ég varð fyrir,“ segir hún. „Mér fannst þetta merkilegt því ég er eftir allt saman fullorðin kona sem gaf þó eiginmanninum valkosti hvað þetta varðar. Hann mátti velja.“

Hún viðurkennir að neikvæðar athugasemdirnar komi henni úr jafnvægi, adrenalínið flæði til höfuðs og hún finni óttaviðbrögð, löngun til að gera gagnárás eða flýja. 

„En þegar ég svo hugsa út í þetta þá sé ég að þetta snýst mikið meira um þau heldur en mig. Slut shaming fyrirbærið er dauðateygjur feðraveldisins.

Dómharka og öfund vansælla kvenna

Konur hafa líka reynt að setja druslustimpilinn á Rinaldi sem velti því jafnframt fyrir sér hvað byggi að baki. Hún rifjaði í því samhengi upp dæmi um gifta konu sem stakk af með giftum manni þegar Rinaldi var sjálf gift. „Þau giftu sig aftur og eignuðust börn, fundu hamingjuna. Ég var samt rosalega neikvæð yfir þessu,“ segir hún og áttar sig í leiðinni á að þetta var blanda af dómhörku og öfund. 

Eftir tilraunaárið mikla hallast Rinaldi að einkvæni og þau Alden eru ekki í opnu sambandi. Hún segist þó aldrei munu dæma aðrar konur sem sofa hjá öðrum en eiginmanni sínum, það séu oftast þær sem eru sjálfar óhamingjusamar í eigin samböndum sem dæma hinar hvað harðast. 

En vilji konur kalla fram meiri neista og fjör í tilveruna án þess að stíga hið dramatíska skref að fara yfir í opið samband mælir Rinaldi með því að beina orkunni í farveg sköpunar og í vinskap við aðrar konur. Hún segir að andleg ævintýri með konum á sinni bylgjulengd gefi sér jafn mikið og kynlífsævintýrin gerðu. 

„Ég var á höttunum eftir kvenlegri orku og krafti með þessum tilraunum mínum á kynlífssviðinu. Ég hélt að ég myndi finna þetta með því að stunda kynlíf með öðrum en eiginmanninum en það kostaði miklar fórnir Konur þurfa ekki að setja líf sitt og tilveru á hliðina til að finna þá gleði sem þær eru að leita eftir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál