Fyrrverandi með veð í húsinu - hvað er til ráða?

mbl.is/AFP

Valdimar Svavarsson ráðgjafi í Lausninni svarar spurningum lesenda. Hér fær hann spurningu frá konu sem skildi eftir 20 ára hjónaband og sat eftir í súpunni á eftir. 

Sæll

Þannig er mál með vexti að fyrrverandi maðurinn minn gekk út eftir 20 ára hjónaband fyrir 6 árum síðan.  Hann var með veð í húsinu hjá mér sem hann átti að flytja af haustið 2010 en hefur ekki gert og ekki greitt af því.

Ég hef marg reynt að ná í hann til að ræða þessi mál og hann vill ekki ræða þetta og segir að ég geti bara greitt þetta. Hvernig er best að tækkla svona menn.

Samskipti okkar voru ekki sérstaklega góð eftir skilnaðinn enda er það mikið áfall þegar einstaklinur gengur út af heimilinu án þess að ræða hlutina og ég vissi ekki að eitthvað væri að. Í framhaldinu fékk ég taugaáfall og er haldin áfallastreitu ásamt miklum kviðaköstum.

Kveðja,  ein ráðalaus

Góðan daginn og takk fyrir sendinguna.

Þumalputtareglan er sú að við getum bara unnið með okkur sjálf en ekki breytt öðrum. Ef það er ekki vilji hjá báðum aðilum til að koma að borðinu og í það minnsta reyna á samkomulag, þá er augljóslega erfitt að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þetta mál lítur þannig út miðað við þessar forsendur og því væri ég meðmæltur því að þú gerir það sem þú getur til þess að fyrrverandi maður þinn hafi sem minnst áhrif á líðan þína í dag. Það er að segja að þú náir að sleppa tökunum á honum og framkomu hans. Það er mikilvægt að ná þeim stað að maður sé ekki að hugsa um aðra aðila á neikvæðan hátt því það dregur bara úr manni sjálfum. Stundum getum við dottið í þann pytt að vera langtímum saman að hugleiða hvernig aðrir koma fram og notum gjarnan mikla orku í slíkar hugleiðingar. Á meðan veit hinn aðilinn ekkert af hugsunum okkar og er jafnvel akkurat ekkert að spá í hvað okkur finnst. Það er svolítið eins og að vera að leigja einhverjum herbergi í höfðinu á okkur, án þess að fá neina leigu borgaða. Þess vegna er mikilvægt að öðlast frelsi frá slíku og þú getur unnið með það eftir ýmsum leiðum.

Ef þú telur einhvern möguleika á að þið gætuð bæði komið að borðinu til þess að ræða málin þá mæli ég með aðferð sem kallast „sáttamiðlun“ og er notuð mikið í Bandaríkjunum. Það snýst um að deiluaðilar setjist að borði með sáttamiðlara sem vinnur að því að ná sátt í máli sem þessu. Slík sátt er í formi sáttmála eða samnings sem báðir aðilar skuldbinda sig til þess að fylgja. Slíkur samningur er ekki lögfestur en byggir á trausti og siðferði þeirra sem að honum standa. Það gæti verið aðferð sem þið gætuð nýtt ykkur því þar er kominn þriðji aðili sem getur aðstoðað við að aðilar stefni að sama markinu þrátt fyrir að samskiptin gangi ekki alltaf vel. Þetta er hluti af þeirri þjónustu sem boðið er upp á hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð og svo bendi ég á sáttamiðlara sem hægt er að finna inn á heimasíðunni www.satt.is

Kær kveðja, 

Valdimar Svavarsson. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

Valdimar Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál