„Hvers virði er mannslíf?“

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Við fæðumst, lifum og deyjum. Við lifum mislengi og spurningin „Hvers virði er mannslíf?“ er tengd ótímabærum dauða fólks sem ákveður að binda enda á líf sitt í kvöl. Eftir sitja maki, börn og aðrir ástvinir og vinir í sárri sorg. Ég heyri skoðanir um að sjálfsvíg sé sjálfselska. Líklega meint að viðkomandi sé ekki að hugsa um sína nánustu. Eins sorglegt og það er þá getur enginn, sem ekki þekkir að vera í þessari stöðu, ímyndað sér hvað gerist í huga manneskju áður hún fremur sjálfsvíg. Mín skoðun er að dæma ekki verknaðinn og setja óhugsað í „spjaldskrá“ yfir sjálfselsku. Þetta er aukaatriðið. Aðalatriðið er hvað orsakaði að viðkomandi lenti í stöðu að telja sjálfsvíg besta kostinn? Ég veit, því miður, um of mörg „óvænt“ dauðsföll fólks sem hefur glímt við andlega sjúkdóma. Fólks sem er samt að taka þátt í lífinu á fullu. Engan grunaði að það væri eitthvað að. Jafnvel ekki þeim allra nánustu,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli á Smartlandi Mörtu Maríu: 

Af því ég nefndi að enginn geti ímyndað sér hvað er að vera í þeirri stöðu að ákveða sjálfsvíg, vil ég örstutt að rifja upp mína reynslu.

Eftir hræðilegan ágústmánuð 2015 gat ég ekki meira. Ég þoldi ekki fleiri ofsakvíða- og panikköst sem voru orðin 2–4 á dag og stóðu yfir í allt að 3 tíma. Ég fór í „black out“ af sársauka. Líkaminn er 80% á fullum dampi á meðan kastinu stendur og var örmagna eftir hvert kast. Þegar þau náðu saman gat ég þetta ekki lengur. Ég þorði ekki að fara út í búð eða vera á meðal fólks af ótta við að fá kast. Ég tók ákvörðun um að kveðja í mikilli angist og hef sagt frá því áður. Það var guðs mildi að mér tókst það ekki! Það varð upphafið að batagöngunni minni. Ég trúi ekki á tilviljanir. Hér var verið að stýra og vísa mér veg ...eftir að ég „sleppti tökunum“. Ég veit því hvað það er að „þefa af dauðanum“ og það getur enginn ímyndað sér hvernig það er, nema að hafa þá reynslu!

Í veikindunum var ég sískrifandi sem hjálpaði mér í gegnum erfiðar dýfur. Ásamt að semja ljóð og lög. Fann sálarfrið. Mér leið samt svo illa að ég man ekki eftir því að hafa samið sum ljóðanna!

Fordómar. Því miður áttaði ég mig á því að í okkar upplýsta velferðarsamfélagi þrífast fordómar gagnvart andlegum veikindum. Eftir að hafa verið þáttakandi í facebook hópum eins og „Geðsjúk“ skynjaði ég þetta betur. Átakið #égerekkitabú var að byrja þegar er ég hóf batagönguna. Ég fékk mikið „boost“ í gegnum það. Ég hef verið virkur í Facebook-hópum og kynnst töluvert af fólki. Samfélag andlegra veikra er einfaldlega þverskurður þjóðfélagsins. Fólk er misjafnlega statt og ekki allir sem hafa mikinn stuðning á bak við sig. Því miður hef ég heyrt og lesið margar sögur að vinir og jafnvel fjölskylda snúi baki við viðkomandi. Fyrir mér lítur það út að fólk skammist sín fyrir að vera tengt aðila sem er andlega veikur! Ég vona að svona dæmi séu ekki of mörg. Ímyndaðu þér skömmina hjá þeim sem er veikur! Hún verður svo mikil að viðkomandi þorir ekki að opinbera veikindi sín af ótta við álit samfélagsins. Berst t.a.m. í kvöl í gegnum vinnudaginn. Aðrir eru óvinnuhæfir og því fylgir jafnvel enn meiri skömm. Ég viðurkenni að ég átti erfitt með að trúa að fordómarnir væru svo miklir að fólk færi með veikindi sín sem mannsmorð!

Ég leitaði en fann ekki margar reynslusögur á íslensku um mín veikindi eða andleg veikindi almennt. Ég hef lesið margar reynslusögur í gegnum erlenda sjálfshjálparhópa á netinu. Það hjálpar mér mikið. Ég get samsvarað mig við reynslu annarra og fengið staðfestingu að mín veikindi eru engin ímyndun.

Í desember 2015 lauk ég við verkefni sem sálfræðingurinn minn lagði fyrir. Ég átti ljúka við eitt verkefni og mátti ráða viðfangsefninu. Ég tók mig til og skrifaði persónulegan pistil. Fyrir sjálfan mig. Lét svo lesa yfir og fékk góð viðbrögð. Ég ákvað að nýta tækifærið og stíga inn í óttann og láta birta pistilinn, af því mér bauðst það. Sjálfstraustið var ekki mikið og ég ætlaði ekki að þora. En gerði það! Það var stórt skref í mínum bata. Viðbrögðin lygilega góð og ég áttaði mig þá á hversu stór hópur af fólki er úti og þjáist hvern einasta dag! Ég fékk komment og skeyti frá fólki sem þakkaði mér mikið fyrir!

Eftir að fyrsta pistilinn hugsaði ég að ef mín skrif, þ.e. mín reynsla getur nýst öðrum, af hverju ekki skrifa, birta og gefa af mér? Þetta var hvötin og tilgangurinn. Ég hef aldrei birt neitt nema vel ígrundað og kominn með frelsi gagnvart. Vitandi að ég gæti átt von á gagnrýni. Frá desember 2015 hef ég ritað marga pistla og farið í viðtöl. Aðaltilgangurinn að miðla reynslu en líka að stuðla að opnari umræðu í samfélaginu um andleg veikindi. Leggja mitt af mörkum til að sporna við fordómunum.

Ég spurði í uphhafi „Hvers virði er mannslíf?“. Mig langar að spyrja „Hversu skaðlegir eru fordómar?“ Að gera lítið úr líðan eða veikindum fólks eru fordómar. Þú ert að meiða viðkomandi. Kannski ekki með ásetningi  en breytir engu. Þetta er þekkt alls staðar í þjóðfélaginu. Það er ekki langt síðan þekktir íþróttamenn stigu fram og sögðu sína reynslu af andlegum veikindum. Þá kom í ljós að íþróttahreyfingin var ekki með stefnu, markmið eða aðgerðir varðandi andleg veikindi. Félögin þ.a.l. ekki heldur. En allt til og gert vegna líkamlegra veikinda. Mér skilst að þetta hafi hrist upp í íþróttahreyfingunni. Það á, árið 2016, að vera jafnsjálfsagt að skima andlega líðan íþróttamanna eins og að fylgjast með líkamlegu ástandi. En er það ekki. Ég ætla að gerast djarfur að segja að ef, t.d. á vinnustað eða í íþróttafélagi, eru engar forvarnir, skimun eða aðgerðaráætlun til vegna andlegra veikinda, þá flokkast það undir fordóma. Kannski harðorðað en að gera ekkert eru skilaboð til andlegra veikra að það sé ekki tekið mark á né sýndur skilningur á andlegum veikindum. Það er engin furða að fólk hugsi sig tvisvar um að opinbera veikindi sín. Því miður treysta sumir sér ekki í að leita hjálpar út af ótta við neikvætt álit.

Fordómar hafa mjög skaðleg áhrif á andlega veikt fólk og því miður geta fordómar kostað ótímabært dauðsfall. Of stór fullyrðing? Nei! Ég hef fengið mikið af símtölum, skeytum og kommentum frá þakklætu fólki eftir að hafa lesið pistlana mína. Margir þakkað mér að gefa sér von eða kjark til að takast á við sín veikindi. Það þarf ekki nema óbilgjarna gagnrýni til að viðkomandi gefist upp, eða upplifa uppörvun og skilning til að viðkomandi fyllist von! Ég veit að þetta getur skipt sköpum. Ég skal nefna dæmi til rökstuðnings fullyrðingunni. Kveikjan að þessum pistli var skeyti sem mér barst nýlega. Viðkomandi gaf leyfi að birta það. Hljóðar svo; „Sæll. Eg er búin að vera að lesa pistlana þína. Í gær ætlaði ég að taka eigið líf. Þú ert að hjálpa fullt af fólki um leið og þú ert að hjálpa sjálfum þér. Takk!“. Mér varð mikið um að lesa skeytið. Ég brast í grát af þakklæti að viðkomandi hafi hætt við og að hafa átt jafnvel þátt í þeirri ákvörðun. Þetta skeyti er allra orðanna virði í öllum mínum pistlum.

Þarna munaði hársbreidd að það yrði ótímabært dauðsfall. Viðkomandi hefur þurft að glíma við skilningsleysi (fordóma!) og staðið ein í baráttu. Eins og flestir þá treystir viðkomandi sér ekki að opinbera sig og segja frá. Upplifði skilning og fékk von að lesa um mína reynslu og sýndi áræðni í að hafa beint samband við mig, einungis til að þakka mér fyrir. Hefði viðkomandi fengið óbilgjarna gagnrýni á sig daginn sem hann íhugaði sjálfsvíg þá hefði þetta getað farið á hinn veginn.

Ég lít ekki á mig sem einhverja hetju að vera að birta mína reynslu eða upphefja mitt egó. Snýst ekki um það. Ég hef einfaldlega þörf fyrir að gefa það sem mér hefur verið gefið. Að fá staðfestingu á að það skili sér er stórkostlegt.

Já, er von að ég velti fyrir mér spurningunni „Hvers virði er mannslíf?“.  Mitt svar er. Mannslíf er ómetanlegt og óbætanlegt. Já fordómar geta kostað mannslíf! Ég held ég hafi náð að rökstyðja að ofan.

Eigum við að standa okkur betur í að sýna hvort öðru virðingu og nærgætni?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál