„Þú þekkir mig ekki“

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Frá sumrinu 2015, þegar byrjaði óbeint að kalla á hjálp, hef ég ekki þagað. Skrifað pistla, langa statusa, farið í viðtöl og gefið af mér mína reynslu. Jú það hefur þurft kjark, styrk og þor að gera þetta. Já gefur vísbendingu um karaktereinkennin í mér. Þau karaktareinkenni koma gjarnan í ljós þegar fólk upplifir sig í algjörri neyð í lífinu. Hvernig bregst ég við stöðunni. Ég brást ósjálfsrátt við á ákveðinn hátt sem hefur síðan undið upp á sig,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Þessi opinberun mín hefur haft neikvæðar afleiðinar. Mér barst hótun í formi sms fyrir ekki löngu síðan. Skrifin mín fóru illa í einhvern sem sá ástæðu til að senda mér hótanir. Mér var brugðið. Hringdi í lögregluna til að vita hvernig ég ætti að bregðast við. Af því ég svaraði viðkomandi ekki þá hættu hótanirnar. Ég ákvað að gera ekkert í málinu að svo stöddu. Þetta er kannski lýsandi dæmi um hvernig sumt fólk túlkar mín skrif og þ.a.l. mig sem manneskju. Og dæmir! Ég veit að þetta getur gerst. Eina sem ég get gert er að hafa stjórn á mínum viðbrögðum.

Þá vaknar kannski spurning um hvers vegna ég er að opna mig opinberlega. Ræðum það. Ég hef skrifað fyrst og fremst til að hjálpa sjálfum mér. Þegar fyrsti pistill birtist var það meiri háttar átak fyrir mig. En viðbrögðin komu mér á óvart. Það er fátt gleðilegra en að upplifa að hafa átt þátt í að gefa manneskju jafnvel von í myrkrinu. Eingöngu með orðum sem viðkomandi tengir við og upplifir sig ekki einan að berjast. Einungis þetta hvatti mig áfram að skrifa pistla fyrst ég treysti mér til þess. Í pistlunum hef ég verið opinskrár upp að ákveðnu marki.

Þá kemur að lykilatriði sem fólk áttar sig ekkert á. Það eru örfáir sem þekkja mig sem manneskju. Ég er nefnilega feiminn og óframfærinn í eðli mínu. Mikil tilfinningavera en um leið svakalegur keppnismaður og fylginn mér. Læt ekki vaða yfir mig. Ég er góð sál og vil innst inni að öllum gangi vel og líði vel. Þó mér finnist ekki allir eigi það skilið. Í eðlilegu jafnvægi er ég svona hugsandi. Reyni að láta gott af mér leiða og særa ekki fólk. Er eins og laukur með nokkur lög. Ég hleypi fólki mislangt inn. Þó nokkrir fá að kíkja inn í forstofu en sumum býð ég alla leið inn í stofu. Þá treysti ég þar til annað kemur í ljós. Lengra hleypi ég fólki ekki að mér. Fyrstu tvö lögin af fimm á lauknum. Hef hleypt fólki lengra inn og brennt mig. Þá er lokað og læst fyrir viðkomandi. Jafnvel öllum. Í dag er ég tengdur fólki sem ég finn að ég get treyst. Ekki mörgum. Ég á vegna höfnunarótta erfitt með að treysta fólki! Að vera kominn á þennan stað er þó gríðarleg framför. Tek fram að þótt ég hleypi fólki ekki lengra að mér er það ekkert persónulegt eða mér líki illa við viðkomandi. Við eigum ekki öll samleið.

Ég er ekki eins og opin bók haldi fólk það miðað við það sem ég hef birt um sjálfan mig. Það er munur á að skrifa og segja frá mér á einlægan hátt og því að opna mig upp á gátt. Berskjalda mig. Ef ég gerði það væri ég skotskífa. Opinber skrif mín eru vönduð hvað þetta varðar. Er þunnur ís og vandmeðfarið. Þar sem ég hef sjálfur verið að vinna í mínum bata hef ég vitað af áhættunni sem þessu fylgir. Það er alltaf hætta á að gefa höggstað á mér og fá yfir mig gagnrýni sem ég gæti átt erfitt með að höndla. Því gæti ég þess að blanda aldrei beint þriðja aðila inn í né vera að dæma annað fólk. Þeir sem þekkja til mín geta sjálfsagt getið í eyður og allt það. En ég er aldrei að rægja mitt samferðafólk þó að ég sé kannski sár eða reiður. Tilgangurinn er ekki sá. Hann er að gefa af mér lísreynslu eins og ég lýsti fyrr.

Framkoma mín er ekki alltaf í samræmi við líðan. Áður fyrr var aldrei tenging á milli. Þá faldi ég sársauka með grímu hrokans. Enn í dag get ég sýnt framkomu sem er ekki í samræmi við líðan. Verð hrokafyllri því verr sem mér líður. Gerist sjaldnar. Ég verð ómögulegur ef mér verður á að særa fólk. Það geri ég aldrei viljandi og biðst strax afsökunar. Við dæmum fólk, eðlilega, út frá framkomu. En framkoman segir mér mikið um hvernig fólki líður. Ég hef svo mikla trú á fólki að ég held að enginn vilji innst inni gera neinum illt. Það eru aðrir þættir sem stjórna því. Ég einset mér á hverjum degi að vera jákvæður og koma kurteisislega fram við fólk. Þó það sýni ekki mér það sama. Tekst það misvel. Eins og þér.

Mér finnt jafnsárt og þér að vera fordæmdur. Að vera dæmdur af fólki sem þekkir mig ekki og hefur ekki hugmynd um hvað það er að dæma. Að dæma fólk er ljótt og þú átt enga innistæðu fyrir því. Það er ljótur siður þegar hópur fólks safnast saman og hefur ekkert annað umræðuefni en að tala um einhvern sem er ekki viðstaddur. Jafnvel vin. Frábært og fallegt ef umtalið snýst um jákvæða hluti. En neikvætt umtal er dómharka og þú ert að meiða með að gera lítið úr fólki.

Já ég hef í skrifum og í stóru viðtali við fjölmiðil verið opinn. En þú þekkir mig samt ekki! Það er lykilatriðið sem ég er að koma að. Ekki það að ég sé að leika í leikriti. Fjarri því. Ég hef alla mína ævi lifað með viðkvæma kviku og lengi vel ekki þorað fyrir mitt litla líf að skyggnast sjálfur þar inn. Hef fengið hjálp til þess að ná út t.d. hvað er að orsaka ofakvíða og ótta svo dæmi sé tekið. Ég vil helst ekki setja mig á stall og segja fólki til. En áður en þú dæmir, hugsaðu. Þér er velkomið að hafa skoðun á því sem ég skrifa. Verið ósammála og látið skrifin mín fara í taugarnar á þér. Það veitir þér samt ekki rétt að dæma mig sem manneskju. Né annað fólk. Hvað veistu um það sem þú ert að dæma? Hvaða forsendur hefur þú fyrir dómhörkunni. Áttar þú þig á að þú ert að fremja andlegt ofbeldi með ásetningi af ástæðulausu. Manneskju með tilfinningar eins og ég og þú. Það jafnast á við líkamlegt ofbeldi.

Það er ekki að ástæðulausu að ég frekar en þú berskjaldi mig. Þó ég gefi af mér mína lífsreynslu. Það er tvennt ólíkt. Finnst mér.

Njótið lífsins kæru vinir með kærleik að leiðarljósi...

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál