Er hægt að skilja í góðu?

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni svarar spurningum lesenda. Hér fær hann mjög afdráttarlausa spurningu frá lesanda: 

Sæll,

Hvernig biður maður maka sinn um skilnað án þess að rústa honum?

Kær kveðja, 

Ö

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna.

Þegar fólk tekur ákvörðun um skilnað er vanalega einhver aðdragandi sem báðir aðilar gera sér að einhverju leiti grein fyrir. Það kemur því sjaldnast algjörlega á óvart þegar slík mál ber á góma. Það á þó vissulega við í sumum tilvikum að annar aðilinn á engan veginn von á slíkri niðurstöðu. Það kemur stundum á óvart í skilnaðarmálum hve langt annar aðilinn hefur farið í hugleiðingum um að skilja, án þess að hafa rætt það við maka sinn. Fyrst og fremst er mikilvægt að hafa gengið algjörlega úr skugga um að þetta sé eina mögulega niðurstaðan og búið sé að vinna sameiginlega að lausn þeirra mála sem leiða að henni.

Ef sú niðurstaða liggur fyrir hjá þér að óska eftir skilnaði og ljóst að engin önnur leið er möguleg, þá er æskilegt að haga málum þannig að svigrúm gefist til að ræða málin og styðja við hvort annað í gegnum umræðuna. Þetta felur í sér að ræða málin þegar báðir aðilar eru lausir til þess að tala saman, það væri til dæmis óheppilegt að setja þetta fram rétt áður en farið er í vinnu að morgni dags og svo framvegis. Þá er einnig mikilvægt að nota ekki rafræn skilaboð eins og sms eða Facebook til þess að koma þessu á framfæri, né heldur með því að skrifa á miða og skilja eftir fyrir viðkomandi til að finna. Ef þið eigið börn þá er einnig mikilvægt að þau séu ekki viðstödd akkúrat á meðan málið er tekið fyrir í fyrstu umræðu, þannig að þau þurfi ekki að verða vitni af geðshræringu sem gæti komið upp eða rifrildi ykkar á milli.

Í þessum samskiptum sem og öðrum er mikilvægt að hafa virðingu og heiðarleika að leiðarljósi.

Gangi ykkur allt í haginn.

Kær kveðja, 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausnin fjölskyldumiðstöð

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningur HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál