Börnin fá að njóta sín á Klambratúni

Í fyrra var meðal annars hægt að fá frítt tattú.
Í fyrra var meðal annars hægt að fá frítt tattú.

Fjölskylduhátíðin Kátt á Klambra fer fram í annað sinn á Klambratúni sunnudaginn 30. júlí. Skipuleggjendurnir vilja skapa rólega stemningu fyrir fjölskylduna þar sem börn fá tækifæri til þess að njóta sín.

Hildur Soffía Vignisdóttir, einn skipuleggjandi hátíðarinnar, segir að hugmyndin hafi kviknað hjá Jónu Ottesen þegar hún var á Secret Solstice fyrir nokkru með dóttur sinni. Jónu fannst vanta almennilega hátíð fyrir börnin svo hún og Valdís Helga Þorgeirsdóttur skipulögðu Kátt á Klambra sem fór fram í fyrsta skipti í fyrra.

„Hún var haldin í fyrsta skipti í fyrra við mjög góðar undirtektir og var mjög vel mætt þannig við sáum það var mjög mikil eftirspurn eftir svona afþreyingu. Þetta er fyrsta svona barnafestivalið sem vitum um,“ segir Hildur Soffía en hún gekk til liðs við hópinn eftir að hún flutti heim frá Noregi síðastliðið haust.

Í Noregi sótti Hildur Soffía alltaf risastóra barnahátíð í Osló sem heitir Miniøya sem henni fannst æðislegt. Hildi langaði að taka þessa hugmynd með sér heim en hugmyndin smellpassaði við það sem þær Jóna og Valdís Helga höfðu verið að gera. Þær hafa nú verið að þróa hátíðina í átt að Miniøya-hátíðinni. „Við erum að nota svolítið Miniøya sem innblástur bæði hvað varðar skipulagningu og ýmsa hugmyndavinnu.“

Aðspurð hvort að henni finnist eins og það hafi vantað svona hátíðir fyrir börnin á Íslandi segir Hildur Soffía svo vera. Hún lýsir öðrum íslenskum hátíðum sem svolítið tryllingslegum þar sem mætt er á staðinn, hoppað í hoppukastölum, borðaður ís og svo farið heim. „Við erum að reyna að skapa gott flæði yfir heilan dag þar sem er fín umgjörð. Svæðið er girt af þannig að börnin eru ekki að fara neitt og foreldrarnir geta verið slakir. Foreldrarnir geta líka notið afþreyingarinnar,“ segir Hildur Soffía um hátíðina en meðal þeirra tónlistarmanna sem koma fram eru Hildur og Emmsjé Gauti. 

Hildur Soffía leggur líka áherslu á að börn geti fengið að taka þátt í einhverju sem þau hefðu annars kannski ekki haft möguleika á. Eins og til dæmis beatbox-kennslu, hjólabrettakennslu, ritlistarsmiðju eða súkkulaðigerð.

Hildur Soffía hefur sem áður segir reynslu af svipaðri hátíð í Noregi, sem hún segist alltaf hafa hlakkað jafnmikið til og börnin. „Norðmenn eru líka miklu duglegri að nota græn svæði, hér er það svolítið vannýtt. Klambratún er til dæmis alveg yndislegur staður,“ segir Hildur Soffía. „Við viljum skapa festivalstemmingu þar sem fólk mætir með lautarferðarteppin sín og eyðir góðum degi með fjölskyldu sinni,“ segir Hildur Soffía að á lokum og bendir jafnframt á að það verði ungbarnasvæði á staðnum þar sem aðstaða er til þess að gefa brjóst og skipta um bleyjur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál