„Eins og að lenda í lífsháska“

Bókin Við Jóhanna var að koma út hjá Forlaginu. Hún …
Bókin Við Jóhanna var að koma út hjá Forlaginu. Hún fjallar um samband Jóhönnu Sigurðardóttur og Jónínu Leósdóttur.

Jónína Leósdóttir hefur skrifað bókina Við Jóhanna en hún fjallar um ástarsamband sitt og hjónband við Jóhönnu Sigurðardóttur fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar. Hér fyrir neðan er fyrsti kaflinn úr bókinni:

Sunnudagurinn 27. júní 2010 er að kvöldi kominn og við Jóhanna sitjum við lítið borð, nánast úti á miðju gólfi, á veitingastað á Akureyri. Það er ekkert sérlega rómantískt að sitja svona á hálfgerðum berangri og þar að auki nálægt útidyrum sem opnast af og til með smágusti. En ekkert annað borð var laust þegar við mættum um klukkan hálf átta án þess að hafa hringt á undan okkur. Við hefðum betur sýnt örlitla fyrirhyggju.

Þó er eitthvað svo dæmigert að við skyldum ekki einu sinni hafa munað eftir að panta borð á veitingahúsi þetta kvöld. Aðrir hefðu eflaust skipulagt veislu með margra vikna fyrirvara, klæðst glæsifatnaði, skálað við vini og vandamenn, borið fram kræsingar, haldið hugljúfar ræður, látið taka af sér ljósmyndir og kannski dansað fram á rauðanótt. Þetta er jú mikill merkisdagur. Í dag fékk samband okkar – þessi langa, oftast ljúfa en stundum stranga vegferð – löglegan stimpil sem hjónaband. Samkvæmt landslögum er ást okkar nú skilgreind nákvæmlega eins og sá kærleikur sem bindur saman karl og konu. Við erum ekki lengur í sérhönnuðu hólfi, staðfestri samvist, sem á sínum tíma var þó vissulega mikilvægt skref í réttindabaráttu samkynhneigðra. Við erum giftar. Fólk hefur víst blásið til mannfagnaðar af minna tilefni.

En við höfum reynt að halda öllu sem snertir sambandið út af fyrir okkur. Ekkert tilstand, enginn lúðrablástur. Á dögum sem marka skil í tilfinningalífi okkar og samverusögu höfum við yfirleitt verið einar. Jafnvel ekki sagt okkar nánustu frá þeim. Við hefðum þó átt að muna eftir að panta borð, helst í rólegu horni. Þetta var nú meiri klaufaskapurinn. Við höfðum verið svo uppteknar af að fylla út eyðublaðið frá Hagstofunni, senda það áleiðis með faxi, pakka niður í töskur og bruna út úr borginni að við steingleymdum að undirbúa kvöldið. Það var ekki einu sinni kampavínsflaska í farteskinu, hvað þá meira.

En stafli af skýrslum og öðrum pólitískum plöggum var í skjalatösku Jóhönnu. Engin hætta á að þau gleymdust. Og á leiðinni norður hafði hún talað nær stanslaust í símann, nema þegar sambandið rofnaði uppi á Holtavörðuheiði. Vinnusímtöl, að sjálfsögðu. Svona er lífið um þessar mundir: Stanslaus vinna, stopular samverustundir, lítil rómantík. Nýja hjúskaparstaðan var því hvorki innsigluð í guðshúsi, af presti né í votta viðurvist heldur stóðum við bara tvær einar í ferðafötunum fyrir framan suðandi faxtæki og ýttum á start-takkann. Einhverjir hefðu kannski frestað þessari stóru stund þar til betur stæði á. En við vissum að það myndi ekki standa neitt betur á eftir nokkra daga, vikur eða mánuði og það var okkur mikilvægt að gera þetta strax. Við vorum ekki sáttar við að vera á öðrum bás en gagnkynhneigð pör, vildum breyta hjúskaparstöðu okkar í hjónaband um leið og hægt væri. Þótt starf Jóhönnu setti lífi okkar þröngan ramma fengju pólitískar annir ekki að spilla því.

Það var eins gott að stoðir sambandsins voru sterkar þegar Jóhanna varð óvænt forsætisráðherra í kjölfar bankahrunsins. Annars hefði álagið hæglega getað rústað sambúðina. Eina leiðin til að komast í gegnum þetta tímabil var að kyngja því að á næstunni myndum við ekki eiga margar stundir í algjöru næði, ekki einu sinni á kvöldin eða um helgar. Ísland var í skelfilegri stöðu, rambaði nánast á bjargbrún, svo starf Jóhönnu varð að ganga fyrir. Sá vandi sem við var að glíma var þess eðlis að hún varð alltaf að vera á vakt, alltaf að hafa hugann við þetta risavaxna, krefjandi verkefni. Hún gat helst ekki misst af einum einasta fréttatíma, aldrei slökkt á gemsanum eða verið langt frá tölvunni. Það var ekki í boði að slá öllu upp í kæruleysi, hætta við að undirbúa fundi, sleppa því að lesa skýrslur og skrifa ræður. Vinnan var númer eitt. Að vissu leyti var þetta eins og að lenda í lífsháska. Við slíkar aðstæður fær fólk stundum einhvern ofurkraft, syndir tímunum saman, lyftir tröllataki eða æðir í gegnum eldtungur. Það
leggst ekki í sjálfsvorkunn og volæði, ann sér ekki hvíldar. Ekki þegar barist er upp á líf og dauða. Þannig var ekki um annað að ræða en að sætta sig við þessa forgangsröð frá fyrsta degi. Hugsa: „Svona er þetta bara.“ Ef við hefðum leyft okkur að vera ósáttar hefði sú óánægja eflaust komið illa niður á bæði einkalífinu og einbeitingu Jóhönnu í starfi. Það mátti alls ekki gerast. Við héldum því nokkuð samstilltar inn í þennan undarlega álagskafla. Og þótt enginn gangi að lífinu vísu vonuðum við að seinna gæfist okkur tækifæri til að bæta þetta upp. Þessi tveggja daga skreppitúr norður í land var dæmigerður fyrir það sem um þessar mundir kallaðist frí á okkar heimili. Jóhanna með gemsann á eyranu og tölvu og pappíra í kjöltunni.

Trúlega sá fólk þetta öðruvísi fyrir sér þegar einhver fjölmiðill lét þess getið að forsætisráðherra væri í „brúðkaupsferð“. Sjálfar vorum við þó sælar með að vera komnar hingað norður, ánægðar með litla, notalega hótelherbergið okkar og með að geta borðað saman í ró og næði, tvær einar. Giftar! Okkur hefði ekki endilega liðið betur í stórri brúðarsvítu í útlöndum. Við hefðum að vísu kosið að vera örlítið meira afsíðis en við vorum orðnar svangar eftir keyrsluna að sunnan og slepptum þess vegna rölti á milli matsölustaða í von um betra borð. Við pöntum pasta en gæðum okkur á lungamjúku brauði með tapernade á meðan við bíðum eftir matnum. Reynum að útiloka umhverfið, einbeitum okkur hvor að annarri og skálum laumulega fyrir hjónabandinu í ítölsku hvítvíni. Það kemur sér vel að við höfum þjálfun í að skapa okkur ósýnilega skjólveggi, láta eins og við séum einar í heiminum. Flestir gestirnir virðast útlenskir og þótt þjónarnir séu íslenskir hafa þeir örugglega verið komnir í vinnuna fyrir kvöldfréttatíma Sjónvarpsins og vita því tæpast hvað við erum að halda upp á. Sjálfar höfðum við séð sjónvarpsfréttirnar á hótelherberginu og vorum eiginlega ekki enn búnar að meðtaka að atburður í einkalífi okkar hefði virkilega þótt fréttaefni. Þetta átti þó ekki að vera neitt leyndarmál, enda hafði Jóhanna samið stutta kveðju sem í kvöld yrði lesin upp á samkomu í Fríkirkjunni þar sem nýju hjúskaparlögunum yrði fagnað. Þar kæmi fram að í dag hefði hún sjálf notfært sér hina breyttu löggjöf. Og einn af sonum okkar starfar sem fréttamaður. Ekki gátum við beðið hann að þegja yfir þessu eins og athæfið væri eitthvað skammarlegt. Fljótlega kemur maturinn á borðið og smám saman slökum við á. Hættum að velta fyrir okkur hvort einhverjir af þjónunum viti að í dag urðum við hjón. Steingleymum því jafnvel sjálfar þegar líður á máltíðina og byrjum að kortleggja
morgundaginn. Þessa helgi er eldri sonur Jóhönnu og fjölskylda hans í sumarbústað í Eyjafirði. Þangað liggur leið okkar upp úr hádegi á morgun og tilhlökkunin er mikil. Samverustundir með fjölskyldunni hafa verið grátlega fáar eftir efnahagshrunið. Við erum niðursokknar í samræður um hinn fyrirhugaða fjölskyldudag þegar karl og kona á miðjum aldri ganga fram hjá okkur á leið út af veitingastaðnum. Konan gengur að hurðinni en í stað þess að taka í húninn snýr hún sér við og horfir á manninn sem staðnæmist brosandi við borðið okkar. Hún brosir líka. Í minningunni er eins og þetta hafi gerst óeðlilega hægt. „Okkur langar bara að óska ykkur til hamingju,“ segir maðurinn kurteislega og sem betur fer stillir hann raddstyrkinn þannig að setningin glymur ekki yfir allan salinn.
„Takk,“ segjum við í kór.

Vandræðaleg þögn.
„Innilega til hamingju,“ endurtekur hann.
„Kærar þakkir.“

Svo snýst hann á hæli og fylgir konu sinni út í sólbjart sumarkvöldið. Og við Jóhanna horfumst í augu, tvær konur á fyrsta degi hjónabands, og hugsum nákvæmlega það sama: Í upphafi sambandsins, fyrir um það bil aldarfjórðungi, hefði það hljómað eins og vísindaskáldskapur að við ættum eftir að ganga í hjónaband. Hvað þá að það þætti svo sjálfsagt mál og gleðilegt að jafnvel bláókunnugt fólk myndi óska okkur til lukku.
Þótt við kímum eru augu okkar óvenjuglansandi. Því leiðin hingað hefur svo sannarlega ekki verið samfelldur sæludans og ekki er laust við að kökkur komi í hálsinn þegar horft er lengra aftur. Þótt hamingjuóskir parsins hafi komið skemmtilega á óvart er þetta svolítið eins og að finnast í feluleik. Hulunni hefur verið svipt af okkur. Við erum ekki lengur í vari fyrir umheiminum, undir tveggja manna huliðshjálmi. Það verður gott að komast aftur upp á hótel. Þá lætur Jóhanna örlagaríka setningu falla, alveg upp úr þurru:

„Kannski ættum við að skrifa bók. Um okkur.“
Hugmyndin svífur andartak í loftinu milli okkar, eins og
lauflétt fjöður sem uppstreymið frá kertinu heldur á lofti.
„Ertu að grínast?“ spyr ég loks.
„Nei.“ Það vottar ekki fyrir kunnuglega stríðnisglampanum
sem ég býst við að sjá í grábláu augunum.
„Hvers vegna ættum við að skrifa bók um okkur?“
„Í von um að það hjálpi öðrum.“
Ég bíð frekari skýringar þótt ég telji mig skilja hvað hún er að fara.
„Við höfum legið undir ámæli fyrir að leggja réttindabaráttu
samkynhneigðra ekki lið með því að tala opinberlega um samband
okkar,“ heldur hún áfram.

„Kannski er kominn tími til að taka það skref. Ef það gæti orðið öðrum hvatning og styrkur.“

Þjónn kemur aðvífandi með cappuccino og við gerum hlé á umræðunum þar til hann er farinn. Ég er enn að melta þetta óvænta útspil, veit eiginlega ekki hvað mér finnst. Hræri af kappi í mjólkurfroðunni sem fer hring eftir hring í bollanum, eins og hugsanirnar í höfðinu á mér. „Og hvernig sérðu þessa bók fyrir þér, svona í hnotskurn?“
Hún er með svarið á reiðum höndum:
„Ja, sem heiðarlega frásögn af því hvað þetta tók oft á og var erfitt. En að það hafi hiklaust verið þess virði að gefast ekki upp.“ Þessi örstutta samantekt nægir til að sannfæra mig.

„Allt í lagi,“ segi ég galvösk.
„Ættum við þá að gera þetta?“
Brosi bregður fyrir á andliti hennar. Samt veit ég að henni er alvara og skynja að hugmyndin er ekki jafnglæný fyrir henni og mér. Hún hlýtur að hafa velt þessu fyrir sér í einhvern tíma.
„Já, já. Skrifum bók!“

Við skellum upp úr, örlítið taugaóstyrkar. Út í hvað erum við nú komnar? Þegar við komum aftur á hótelið stendur vasi með rauðum rósum á borði í herberginu. Starfsfólk hótelsins hefur greinilega heyrt brúðkaupsfréttina. Þessi blóm, sem einhver hefur læðst
með inn til okkar, eru eina rómantíska tákn dagsins og þau ylja okkur. Ekkert slær þó út þá tilfinningu að vera giftar. Það er rómantík í hæsta veldi. Við þurfum ekki flotta kjóla, kampavín, kransaköku og fullan sal af fólki. Okkur líður ljómandi vel einmitt svona – tvær einar í rólegheitum. Þó er aldrei að vita nema við hefðum slegið upp kirkjubrúðkaupi og stórveislu ef sá möguleiki hefði verið fyrir hendi að ganga í hjónaband þegar við skráðum okkur í staðfesta samvist 2002. En það stóð ekki til boða og við höfum sem betur fer lært að forðast eftirsjá. Fortíðin er ekki eins og við hefðum helst kosið, ýmislegt hefði mátt betur fara. En henni verður ekki breytt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál