Þegar tónlistin tekur öll völd

Sif Jóhannsdóttir fór á afar skemmtilega tónleika í vikunni.
Sif Jóhannsdóttir fór á afar skemmtilega tónleika í vikunni.

„Ég fór á tvenna tónleika. Mér áskotnuðust miðar á kostakjörum á Lady Gaga á mánudagskvöldið sem var alveg dúndrandi leið til að byrja vikuna. Ég er enginn sérstakur aðdáandi en það er ekki hægt að neita því að sýningin sem hún setur upp er ansi mögnuð. Tilfinningin var svolítið eins og að vera á Cirque de Soleil. Hún blaðrar líka heil ósköp við áhorfendur og er lagin við að rífa upp stemninguna. Hún blótar út í eitt, setti upp furðulega svipi, dansaði sig sveitta, mæmaði og söng til skiptis en greinilegt er að hún á sína aðdáendur með húð og hári,“ segir Sif Jóhannsdóttir í sínum nýjasta pistli.

„En það voru tónleikarnir sem ég fór á í Greek Theater sem skildu mig eftir orðlausa og stundum í tárum. Greek Theater er stórskostlegt svið úti undir berum himni hér í borg. Og söngkonan var Tori Amos. Tori kynntist ég fyrst um 14 ára þegar ein vinkonan dró upp diskinn Little Earthquakes (sem var reyndar tekinn upp hér í LA og hún sagði á tónleikunum að flest lögin hefðu verið samin þarna rétt hjá tónleikasvæðinu). Hormónafylltir unglingar fundu sig í tónlistinni og við spiluðum diskinn látlaust heilan vetur. Ég lét mig dreyma um að verða hún þrátt fyrir að píanóhæfileikarnir hafi ekki verið miklir og söng Winter af miklum móð allan þann vetur og hugsaði um draumaprins þeirrar stundar meðan ég söng orðin „when are you going to love you as much as I do“ (bara svo þið náið stemningunni). 6 árum seinna bjó ég í Suður-Frakklandi með myndarlegum manni. Hann spilaði Winter fyrir mig á gítar úti á svölum í kvöldsólinni meðan ég söng undir og ég hélt að þetta væri toppurinn á tilverunni. Ókei. Þetta hljómar betur en þetta var er ég viss um. Það var rósavín í spilinu og ég hlýt að hafa innbyrt meira en dagskammtinn þetta kvöld því næst þegar við reyndum þetta þá hljómaði þetta ekki himneskt heldur miklu frekar sem falskt gaul og hann kominn út úr skápnum. En ég gleymi þessu samt aldrei!“

Sif segir að ást sín á Tori Amos hafi aldrei dáið.

„Að heyra hana syngja öll þessi lög sem eru tengd ljúfsárum minningum unglingsáranna og óendurgoldinni ást var magnað. Hún söng öll uppáhaldslögin mín og toppaði þetta svo með því að taka cover af Hyperballad eftir Björk. Hún hefur engu gleymt þó hún sé þjökuð af breytingaskeiðinu (hennar orð, ekki mín!)

Næst á óskalistanum er að sjá U2 og syngja með þeim undir laginu One og þá mögulega þarf ég ekki að sjá fleiri bönd um ævina!

P.s. Þeir sem vilja sjá Tori syngja lagið hennar Bjarkar geta gert það hér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál