Í pels af Ingu Laxness á forsíðunni

Mikael Torfason og Elma Stefanía Ágústsdóttir.
Mikael Torfason og Elma Stefanía Ágústsdóttir. Ljósmynd/Hari

Leikkonan Elma Stefanía Ágústsdóttir fer með hlutverk Ástu Sóllilju í Sjálfstæðu fólki, sem er jólasýning Þjóðleikhússins í ár. Hún prýðir forsíðu Fréttatímans í dag ásamt eiginmanni sínum, rithöfundinum Mikael Torfasyni. Á forsíðunni klæðist Elma Stefanía pels sem var í eigu Ingu Laxness, fyrrverandi eiginkonu Halldórs Kiljan Laxness. Pelsinn er sögufrægur en Halldór þurfti að hafa mikið fyrir því að kaupa hann. Í dag er hann í eigu Filippíu Elíasdóttur búningahönnuðar. 

Á mbl.is í nóvember 2004 birtist umfjöllun um pelsinn fræga. 

„Í bókinni Halldór Laxness - ævisaga er meðal annars fjallað ítarlega um ferð Halldórs til Moskvu veturinn 1937-1938, þegar hann var viðstaddur réttarhöldin yfir Búkarín og handtöku Veru Hertzsch. Pólitísk afstaða Halldórs er rakin og sagt frá tilraunum hans til að fá útgáfu í Sovétríkjunum. Í kaflanum er líka eftirfarandi saga:

Í Skáldatíma þar sem Halldór gerir upp við sína sovéthollustu er ekki einber alvaran ríkjandi, þar er líka grátbrosleg saga af ritlaununum vegna samningsins um Sjálfstætt fólk sem hann gerir í mars 1938 við Anisimov hjá Goslitizdat-útgáfunni. Hann segir frá því að forlagið hafi greitt sér tíu þúsund rúblur við undirritun en ekki hafi verið um annað að ræða en að kaupa sér einhverja vöru sem hægt væri að hafa með sér úr landinu: „Ég fór búð úr búð með aðstoðarfólki mínu en sá aungvan hlut sem ég vildi heldur eiga en vera án. Loks komu ráðhollir og velviljaðir menn mér á þá skoðun að ég skyldi kaupa grávöru, og varð úr að ég keypti loðkápu úr safalaskinni sem eftir skráðu geingi rúblunnar hefði numið yfir 20 þúsund dönskum krónum að verðmæti.“ Við tekur mikil hörmungarsaga: Þegar pelsinn kom til Reykjavíkur reyndist hann bæði svo illa verkaður og vitlaust sniðinn að enginn vildi líta við honum, ekki var heldur hægt að selja hann í Kaupmannahöfn og hann var sendur aftur til Moskvu, en andvirði hans lagt inn á sovéska bankabók sem var horfin þegar höfundur vitjaði hennar í næstu för, 1949. Þar fóru ritlaunin fyrir Sjálfstætt fólk.

Þetta er góð saga. Og verður ekki síðri af því að fylgja pelsinum á langferð sinni um Evrópu í aðdraganda heimsstyrjaldarinnar með hjálp bréfa Halldórs til Ingu og gagna á rússneskum skjalasöfnum. Reyndar hafði Halldór alltaf haft hug á að kaupa pels handa Ingu ef útgáfa yrði samþykkt. Samningar sovéskra forlaga við erlenda höfunda á þessum árum voru þannig að upplag var fyrirfram ákveðið, helmingur ritlauna var greiddur í rúblum við undirritun, 40% við útkomu verksins og 10% í gjaldeyri á samningstímabilinu. Það var því ljóst að útlendur höfundur sem ætlaði ekki að dvelja þeim mun lengur í Rússlandi varð að kaupa eitthvað fyrir ritlaunin og Halldór tók snemma ákvörðun um það einsog hann skrifaði Ingu frá Moskvu: "Jæa elskan, ef ég geri samning, þá færðu pels!"

Í næsta bréfi spyr hann hvort hann eigi kannski að kaupa handa henni persneskan lambspels. En þegar samningurinn hefur verið gerður í mars er hann búinn að fá bréf frá Ingu þar sem hún er ekki sérlega spennt fyrir persnesku lambi, svo hann tekur sig til og kaupir bjórpels sem var "mjög dýr og fór h.u.b. alt rússneska hónórarið mitt í hann, en það gerði ég með glöðu geði, því pelsinn er sannarlega augnayndi og að sama skapi sterkur". Hann segist vera viss um að hún verði ánægð með hann hvernig sem honum gangi nú að koma honum heim.

En þar stóð hnífurinn í pelsinum. Hinn fyrsta apríl skrifar Halldór Ingu frá Uppsölum: „Elsku vina mín, það fór þannig á sovésku landamærunum, að mér var bannað að fara út úr landinu með pelsinn þinn af því það er á móti reglunum að karl fari með kvenmannsföt og vice versa. Það hjálpaði ekki mikið þótt ég segði að þú værir farin á undan. Aðeins með sérleyfi frá hæstu tollayfirvöldum Moskvu sögðu þeir að pelsinn feingi að halda áfram. Ég varð því að skilja hann eftir gegn kvittun.“

Það er eins gott að Greta Garbo var ekki samferða Halldóri með fatakoffortin sín yfir þessi landamæri. Halldóri var auðvitað mjög brugðið við þetta og skrifaði Apletin um leið og hann kom til Finnlands, og biður hann að sjá til þess að pelsinn verði sendur heim til sín til Íslands og afla til þess tilskilinna leyfa frá tollinum í Moskvu. Hann ítrekar þetta í bréfi til Burmeister tveimur dögum seinna og bætir við að tollverðirnir hafi sagt honum að verði þetta ekki gert innan nokkurra vikna verði varan seld. Apletin bregst vel við og leysir pappírsmál og sendir pelsinn af stað til Íslands. Hinn 15. júní getur Halldór skrifað Apletin frá Laugarvatni, þar sem hann er að semja Gerska æfintýrið, að Inga hafi hringt í sig fyrir nokkrum dögum og sagt sér að pelsinn sé kominn. Fyrst óttast Halldór að þau muni þurfa að borga háan toll af honum en svo tekst að semja um þolanlega upphæð: 100 krónur. Halldór ítrekar þakkir sínar til Apletins fyrir hjálpina með öðru bréfi í sumarlok.

En 12. október skrifaði Halldór Apletin nýtt bréf, að þessu sinni frá Kaupmannahöfn, og sagði farir sínar ekki sléttar. Fyrst varð hann að gera játningu: „Það er nú svo að ég hef aldrei vitað neitt um pelsa, og keypti þennan bara til að fá eitthvað fyrir peningana sem ég fékk hjá sovésku bókaútgáfunni.“ Honum hafði verið sagt í versluninni í Moskvu að þetta væri allra fínasti bjór og auk þess á mjög góðu tilboði, og Halldór hafði ekki trúað því að sovéskur afgreiðslumaður færi að hafa sig að fífli og því skellt sér á pelsinn. Á Íslandi var enginn sérfræðingur í skinnavöru til að segja þeim eitthvað um verðmæti pelsins en þegar til átti að taka var hann tvisvar sinnum of stór á Ingu, og þar að auki með sniði sem fór úr tísku fyrir 40 árum, svo þau ákváðu að hafa hann með sér aftur til Kaupmannahafnar til að kanna hvort ekki væri hægt að sníða hann upp þar. En í fínustu skinnaverslun Kaupmannahafnar, Levinsky, var þeim sagt að þetta væri nú aldeilis enginn bjór, heldur oturfeldur af billegustu gerð og þar að auki svo illa verkaður að það tæki því ekki að endurvinna hann. Nú segist Halldór helst vilja fá að skila pelsinum í verslunina í Moskvu og fá hann endurgreiddan. Apletin sendir skeyti og segir að þau geti að sjálfsögðu skilað pelsinum. Þá er Halldór kominn til Parísar þaðan sem hann skrifar Apletin og biður hann að afsaka allt umstangið af loðdýrinu, sem sé eiginlega allt sér að kenna. Sælir eru einfaldir, segir hann, en þeim er refsað fyrir það síðar!

Inga er eftir í Kaupmannahöfn og Halldór skrifar henni líka frá París og segir: „Mér finst alveg sjálfsagt að senda pelsinn aftur til Rússlands, því þú verður aldrei ánægð með hann þó þú látir gera hann upp; nema í því falli að þú getir selt hann á góðu verði. Láttu búa þér til Ozelot kápu, ég get alveg áreiðanlega borgað hana,“ bætir hann við. Hann hafði ætlað að gefa konu sinni pels mitt í þessum eilífu blankheitum og svo klúðrast það allt af því að hann stóð sig ekki nógu vel í skinnaverslun í Moskvu, svo hann biður hana endilega að fá sér tígriskött í staðinn. Og í lok nóvember skrifar hann Apletin aftur frá París og segir að nú sé Inga búin að eignast þennan fína tígurfeld eftir nýjustu tísku.

En skila og ekki skila? Hvernig á að senda pelsinn og hvernig á að koma honum yfir landamærin? Inga spurði Apletin sjálf að þessu í bréfi sem hún skrifaði honum til Moskvu frá Kaupmannahöfn og sagði: „Ég veit að þið hafið fullt af fegurstu skinnavöru í Moskvu, svo það var ljóta óheppnin að Halldór skyldi velja þennan.“ En nú brá svo við að ekkert heyrðist frá Apletin og þegar Inga þarf að fara heim seint í desember tekur hún pelsinn með sér. Halldór skrifaði Apletin frá Kaupmannahöfn 17. desember og er nú ekki alveg eins elskusamur og afsakandi. Hann sagði að þau væru búin að þræða allar skinnaverslanir í Kaupmannahöfn en enginn hefði viljað líta við þessu. Að vísu hefðu karlmenn gengið í oturpelsum fyrir svona 10-15 árum en það væri liðin tíð, og það myndi ekki hvarfla að konum að ganga í otri. Þennan feld mætti í hæsta lagi selja sem gólfmottu. Fólk sem hafi loðdýr á gólfinu hjá sér sé hins vegar vandfundið. Að lokum hafi þau sett auglýsingu í blöð til að finna kaupanda en þeir fáu sem komu að líta á gripinn fylltust viðbjóði, og hæsta boð var 75 krónur. Þá sá Inga sér ekki annað sýnna en að fara aftur með pelsinn heim og reyna að minnsta kosti að fá tollinn endurgreiddan.

Hinn 11. janúar 1939 kemur loks bréf frá Apletin þar sem hann biðst afsökunar á að hafa ekki svarað fyrr, en hann hafi verið á ferð um Kákasus. Það liggi ljóst fyrir að verslunin í Moskvu muni taka við pelsinum aftur og andvirðið verða lagt inn á bankabók Halldórs þar. Í millitíðinni notar hann tækifærið og sendir Halldóri Sögu Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna. Halldór fékk bókina 8. mars og póstlagði pelsinn til Moskvu sama dag og má kalla það óvanaleg vöruskipti. Með fylgir bréf þar sem hann segir Apletin að nú hafi Inga fullreynt að ekki sé hægt að selja pelsinn heldur á Íslandi. Hinn 17. maí 1939 staðfestir Apletin loks að för pelsins sé lokið: Verslunin hefur tekið við honum aftur, rúblurnar verið lagðar inn á bók í nafni Halldórs í Moskvu og kvittunin er á leiðinni. En hún dugði skammt, því þegar Halldór kom til Sovétríkjanna 1949 var enga bók að finna. Hann var sáróánægður með það og ræddi við forstöðumann sovéska sendiráðsins, Kortsjagín, þegar hann kom heim og sá sendi skýrslu til VOKS um samtalið: Halldór þyrfti nauðsynlega á þessum peningum að halda, ekki síst núna þegar íslensk yfirvöld væru að leggja hald á eignir hans, og Apletin hefði lofað að hjálpa Halldóri að ná þeim, með málshöfðun ef ekki vildi betur til. En Halldór virðist ekki hafa haft erindi sem erfiði það sinnið.

Þá var pelsinn sem Halldór keypti sér fyrir væntanlega sovéska útgáfu á Bjarti búinn að fara frá Moskvu að landamærum Finnlands, þaðan aftur til Moskvu, frá Moskvu til Reykjavíkur, frá Reykjavík til Kaupmannahafnar, svo aftur til Íslands og þaðan loks til Moskvu. En Sjálfstætt fólk kom ekki út á rússnesku fyrr en 1954, ári eftir lát bóndans og feldskerans mikla í Kreml.

Bréfin sem vitnað er til eru ýmist í vörslu Einars Laxness, sonar Ingibjargar og Halldórs, eða rússneskum skjalasöfnum og vísast um þær heimildir til bókarinnar sjálfrar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál