Jólahefðir Loga Bergmanns og Svanhildar Hólm

Valgerður Matthíasdóttir, Logi Bergmann Eiðsson og Svanhildur Hólm Valsdóttir.
Valgerður Matthíasdóttir, Logi Bergmann Eiðsson og Svanhildur Hólm Valsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjónin Logi Bergmann Eiðsson og Svanhildur Hólm Valsdóttir lifa bæði annasömu lífi en þau gefa sér þó tíma til þess að hafa það gott um jólin. Til þess að lífið verði sem skemmtilegast í desember skipta þau með sér verkum. 

Eru einhverjar sérstakar hefðir á heimilinu fyrir jólin?

Svanhildur: „Já, hjálpi mér, jólin eru eintómar hefðir. Ein af þeim er jólaferð til Akureyrar, þar sem við förum með stelpurnar í Jólahúsið á Hrafnagili, þær fá að velja sér eitthvað til að skreyta með fyrir jólin og ég vel líka nýja veglega jólakúlu á tréð. Svo kaupum við of mikið af syndsamlega góðum karamellum sem fást í Jólahúsinu og líður öllum á eftir eins og við þurfum að raka á okkur tunguna. Hluti af töfrunum við þessa ferð er að mamma og pabbi skreyta áður en við komum og ég fæ nostalgíuna í æð um leið og ég geng inn úr dyrunum í Lerkilundinum,“ segir Svanhildur.

Hvað gerir fjölskyldan á Þorláksmessu? „Ég hlusta á jólakveðjur á Rás 1, það er alveg ómissandi, um leið og við skreytum. Svo sjóðum við hangikjöt og hinir og þessir laumast í bæinn til að kaupa síðustu jólagjafirnar. Við Logi höfum frá okkar fyrstu jólum, þegar við höfum verið í Reykjavík, endað Þorláksmessurúntinn á því að fara í Fríðu frænku, kaupa eitthvað smálegt og fá okkur konfekt og lögg í kjallaranum. Í fyrra held ég að við höfum verið að taka upp nýja hefð, sem mun bæta okkur upp missinn af Fríðu frænku sem var lokað í vor, en það er að fara til Halldórs Högurðar og borða restarnar af Þorláksmessuboðinu hans, áður en við förum heim til að skreyta tréð,“ segir Svanhildur.

„Hefðin er sú á aðfangadag að meðan Svanhildur er í eldhúsinu fer ég út með stelpurnar og tek jólamynd af þeim, þar sem þær horfa venjulega hvor í sína áttina eða snúa sér undan, eru að slást eða hlaupa út úr mynd á svona 98 af 100 myndum. Svo læt ég Svanhildi velja á milli þessara tveggja sem eru nokkurn veginn í lagi og fer svo í að setja jólakveðju á netið, enda er þá orðið útséð um það, þarna um þrjúleytið á aðfangadag, að við sendum einhver jólakort það árið,“ segir Logi.

Hver sér um að skreyta jólatréð og hvenær er það yfirleitt gert? „Svanhildur skreytir,“ segir Logi og Svanhildur bætir við: „Stöku sinnum hef ég látið undan þrýstingi og skreytt tréð 22. desember, en mér finnst að það eigi helst ekki að gera fyrr en á Þorláksmessukvöld, svo það sé það fyrsta sem krakkarnir sjá þegar þeir vakna og koma fram á aðfangadagsmorgun. Það er reyndar svona fjögurra tíma vinna að skreyta tréð, þar sem á það fara 200 ljós og álíka margar kúlur eða annað skraut. Skreytandinn er líka með talsverða þráhyggju fyrir symmetríu og svoleiðis hlutum, þannig að það hefur sína kosti að gera þetta fyrr. Þá fá líka litlu stýrin að vera með að skreyta, sem reynir á symmetríuáráttuna, en skilar oft skemmtilegri útkomu.“

Hver sér um að kaupa jólagjafirnar? „Við skiptum þessu aðeins á milli okkar en Logi tekur framkvæmdina að sér að mestu eftir að vandað ákvarðanaferli hefur farið fram á heimilinu. Djók. Við reynum að fá einhvern óskalista hjá börnunum og draga upp úr foreldrum okkar hvað þeir vilji fá. Svo upphefst leit að gjöf fyrir þá sem vantar ekkert og allt er fært í excel-skjal.

Ég á jólainnkaupalista tíu ár aftur í tímann og rúmlega það, bæði jólagjafakaup og mat. Matarinnkaupin eru til dæmis mjög þægileg því ég fletti bara upp grunnskjalinu og uppfæri það eftir því hvað er til í skápunum.“

Hver sér um hreingerningar? „Við fáum aðstoð við þær, en svo deilum við þeim með okkur. Í fyrra voru mamma og pabbi hjá okkur á jólunum þannig að þau léttu verulega undir með okkur við síðustu verkin. Annars veit ég að mér verður hent út úr ákveðnum hópi á Facebook þegar ég segi að jólin komi þótt það sé ekki búið að spritthreinsa með eyrnapinnum út í öll horn. Það er reyndar ekki það sem ég ólst upp við á æskuheimilinu, þar sem allt var þrifið hátt og lágt og ég til dæmis hafði það verkefni frá því ég man eftir mér að pússa silfrið og þrífa baðskápinn og laga til í honum. Það var alvöruverkefni, enda baðskápurinn á stærð við meðalfataskáp,“ segir Svanhildur.

Hver sér um bakstur? „Svanhildur sér um bakstur, svo nýtur hún þess að eiga ofvirka mömmu sem bakar fyrir hana stóru lagterturnar, steikir laufabrauð og býr til sprautukossa. Sjálf er hún meira bara í smákökunum,“ segir Logi. „Ég þarf reyndar yfirleitt að baka nokkrum sinnum, þar sem Logi lítur svo á að í desember sé eðlilegur morgunmatur um það bil tíu smákökur og lítri af mjólk og það gengur fljótt á birgðirnar þannig.“

Hver sér um eldamennskuna á jólamatnum sjálfum? „Ég elda og geri það eftir vandlegri forskrift frá mömmu. Þegar ég fór að halda mín eigin jól sendi mamma mér plagg sem heitir Uppskrift að jólum. Þar er farið yfir allt sem maður þarf að vita um undirbúning jólamáltíðarinnar, allt frá því hvenær maður setur yfir grjónin fyrir ris a la mande, yfir í sósugerð með hamborgarhryggnum og hvaða meðlæti á að hafa. Ég er að þessu meira og minna frá hádegi á aðfangadag og enda svo á að taka jólabaðið meðan hamborgarhryggurinn er í ofninum og hlusta í baðinu á Guðna Má tala um Jesú og vini hans í útvarpinu. Ætli Magnús Geir sé ekki örugglega búinn að tala við hann um að vera á Rás 2 milli fjögur og sex á aðfangadag?“ segir Svanhildur að lokum.

Svanhildur Hólm, Auðunn Blöndal og Logi Bergmann Eiðsson.
Svanhildur Hólm, Auðunn Blöndal og Logi Bergmann Eiðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál