Fer ekki í sund vegna húðslita

Guðrún Veiga fer ekki í sund því hún er ekki …
Guðrún Veiga fer ekki í sund því hún er ekki nógu ánægð með líkama sinn.

„Það er sláandi að lesa að 1 af hverjum 4 stúlkum, á aldrinum 18-25 ára, fari sjaldan eða aldrei í sund vegna óánægju með líkama sinn.

Sjálf hef ég farið tvisvar í sund hérna á Íslandi síðastliðin 12 ár. Kannski 14. 12 eða 14 ár. Give or take. Eitt skipti var ég tilneydd í gæsun vinkonu minnar. Í hitt skiptið lét ég það eftir afkvæminu að fara með honum í sund. Í bæði skipti klæddist ég flotgalla. Eða svo gott sem,“ segir Guðrún Veiga í sinni nýjustu bloggfærslu. Guðrún Veiga er þekkt sem lati kokkurinn en hún gaf út bókina fyrir jólin, Nenni ekki að elda. Í nýjustu herferð Dove #Sönn­Feg­urð , eru íslenskar stelpur spurðar út í sundferðir. Dove vill stuðla að bættri lík­ams­mynd stúlkna og kvenna á Íslandi. Fyr­ir­tækið birti fyrstu aug­lýs­ing­una á Face­book síðu Dove í dag þar sem ís­lensk­ar stúlk­ur eru spurðar um sund­ferðir.


„Ég fór að vísu í Bláa lónið í síðustu viku. Ekki í sundbol. Ekki í bíkini. Nei, heldur var ég í hlýrabol með vel breiðum hlýrum og næstum skósíðum stuttbuxum af sambýlismanninum.

Ég er sífellt að reyna að sigrast á þeim komplexum sem hrjá mig. Og eins og ég hef oft sagt þá er ég nokkuð sátt í eigin skinni. Ég áttaði mig samt nýlega á því, að það á eiginlega bara við þegar búið er að hylja megnið af skinninu með einhverju fatakyns.

Mér hefur hingað til tekist að forðast aðstæður þar sem ég býð gestum og gangandi upp á mig fáklædda. Nema kannski inni í svefnherbergi. Þar eru svo sem ekki margir gestir. Og þar er ég líka drottning. Djók.

Að öllu gríni slepptu - með því að forðast aðstæðurnar þá forðast ég að horfast í augu við komplexana,“ segir hún jafnframt.

Hún segir það ansi skítt að fara ekki með barninu sínu í sund vegna eigin komplexa.

„Skítt að liggja ekki í heita pottinum eftir langan dag. Skítt að fara ekki í endurnærandi gufubað. Skítt að eyða ekki þeim sárafáu sumardögum sem við fáum einhversstaðar á sundlaugarbakka.

Af hverju geri ég það ekki?

Ég horfði lengi á mig í speglinum áðan. Ég er öll slitin. Frá öxlum og niður að hnjám. Ekki eftir barnsburð. Ó, nei. Heldur eftir að hafa eytt góðum 10 árum af lífi mínu í að þyngjast og léttast á víxl. Megrun á megrun ofan. Alltaf að reyna að passa inn í eitthvað form. Mæta útlitskröfum samfélagsins. Vera ekki á skjön við aðra.“

Hún segist kerfisbundið tala illa um eigin líkama þegar hún horfir í spegil.

„Þarna stóð ég fyrir framan spegilinn og talaði illa um eigin líkama. Talaði mig niður. Bölvaði mér fyrir slæmar ákvarðanir á lífsleiðinni. Dró úr lífsgleði minni og sjálfsöryggi á hraða ljóssins.

Þvílík andskotans brenglun.“

HÉR er hægt að lesa færsluna í heild sinni.

Guðrún Veiga.
Guðrún Veiga.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál