Dansar úr sér stressið

Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir.
Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir. mbl

Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir, einn af umsjónarmönnum EM-stofunnar, hefur staðið í ströngu síðustu vikurnar. Hún lærði kvikmyndagerð í Kaliforníu og hefur unnið mest fyrir aftan myndavélarnar. Þegar Þorsteinn J. hafði samband við hana í desember og bað hana um að vera hluta af EM-stofunni ákvað hún að láta slag standa. Hún þurfti ekki að hugsa sig um. 

„Þegar Þorsteinn J. hafði samband við mig var ég á haus í tökum á áramótaskaupinu. Mér fannst þetta strax áhugavert og varð samstundis spennt fyrir að fá að vera hluti af teyminu sem stendur að EM-mótinu hjá Símanum. Verkefnið hljómaði spennandi, ég kom snemma inn í það og tók þátt í undirbúningi áður en ég færði mig yfir í hlutverk eins þáttastjórnendanna. Eins er hver snillingurinn á fætur öðrum að vinna í þessu verkefni svo ég er bæði glöð og þakklát fyrir að vera hluti af þessum hóp,“ segir Sigríður Þóra. 

Hún segir að það sé ný upplifun að vera fyrir framan myndavélina en ekki fyrir aftan hana. 

„Ég hef unnið lengi fyrir aftan vélina og því er virkilega gaman að upplifa að vera hinum megin. Mér líður mjög vel þar. Það er auðvitað krefjandi, eins og það er oft þegar maður tekur sér eitthvað nýtt fyrir hendur, en ég er að hafa mjög gaman af þessu og nýt þess að taka þátt í þessu verkefni,“ segir hún. 

Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir er alltaf að vinna.
Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir er alltaf að vinna.

Sigríður Þóra fór til Los Angeles haustið 2012 þar sem hún lærði kvikmyndagerð og heimildarmyndagerð. Hún vann í eitt ár eftir útskrift í stórborginni. Eftir að hún kom heim hefur hún unnið að ýmsum verkefnum fyrir RÚV. Hún hefur verið í tökum á Stundinni okkar og var framkvæmdastjóri Áramótaskaupsins. 

„Það var eitt stórt ævintýri og yndislegur tími. Mér leið rosalega vel í LA og eignaðist mikið af góðum vinum sem ég er í góðu sambandi við enn. Ég sakna LA og fólksins míns þar þó það sé líka gott að vera komin heim og í faðm fjölskyldu og vina hér. Lokaverkefnið mitt í skólanum var stutt heimildarmynd um ömmu mína og afa sem ég er rosalega stolt af. Þau voru saman í 74 ár og myndin fjallar um þeirra ástarsögu. Það var stórkostlegt að fá að vinna það verkefni með þeim og dýrmæt mynd að eiga. Þau létust bæði meðan ég var búsett úti, afi tæplega 99 ára og amma 96. Mér þykir alveg óendanlega vænt um þessa litlu mynd mína og er þakklát fyrir að hún er til.“

Þegar hún er spurð út í áhuga sinn á fótbolta segist hún hafa fylgst með honum í gegnum tíðina en áhuginn hafi kannski ekki verið brennandi. 

„Áhuginn fer þó sífellt vaxandi og mér er búið að finnast rosalega gaman að vinna við og fylgjast með EM núna, bæði íslenska liðinu okkar en einnig öðrum liðum. Ég er að koma sjálfri mér á óvart í rauninni hvað ég nú veit og hvað ég hef mikla skoðun á því hvernig mótið er að þróast. Það er mjög gaman að uppgötva nýtt áhugamál og það þegar svona vel gengur hjá okkar mönnum.“

Nú eru fótboltabullur kröfuharðar, er ekki erfitt að gera þeim til hæfis?

„Ég hef ekki fundið fyrir miklum kröfum í minn garð og auðvitað er ekki hægt að verða að óskum allra. Það verða aldrei allir ánægðir með það sem maður gerir. Ég reyni bara að vera einlæg í því sem ég geri og gefa mig ekki út fyrir að vera eitthvað sem ég ekki er. Vonandi gef ég eitthvað af mér sem fólki líkar og getur glaðst yfir,“ segir hún. 

Hefur eitthvað óvænt gerst á bak við tjöldin sem áhorfendur hafa ekki séð? 

„Gummi Ben að lýsa,“ segir hún og hlær og bætir við: „Sem betur fer náðist það á myndavél í þarsíðasta leik. Annars fer gríðarlega mikið fram bak við tjöldin, sérstaklega þar sem dagarnir hafa verið langir og rosalega mikið af fólki sem kemur að útsendingunum. Það er náttúrlega heilmikið sem fólk ekki áttar sig á eða sér og stundum er það best þannig,“ segir hún og hlær. 

Hvernig undirbýrðu þig fyrir beina útsendingu? 

„Ég reyni að ná góðum svefni, held að það sé mikilvægast. Hugsa vel um líkama minn og andlega heilsu með hjálp fólksins míns. Ég var mjög dugleg að stunda ræktina vikurnar áður en mótið hófst þó því miður hafi verið lítill tími til þess síðustu daga. Svo náttúrlega er heilmikill undirbúningur sem þarf að fara í gegnum fyrir útsendingar hvern dag.“

Finnur þú fyrir stressi? 

„Ég verð ekki oft stressuð en þegar það gerist - þá dansa ég!! Annað hvort við tónlist sem hljómar í kringum mig í það skiptið eða set heyrnatól í eyrun og hækka í botn. Dansa svo ein með sjálfri mér og læt sem enginn sé að horfa. Ég get ekki verið annað en glöð þegar ég dansa svo þetta er besta leið sem ég veit og virkar í hvert sinn.“

Þegar Sigríður Þóra er spurð að því hvort hún fari ekki í gott sumarfrí eftir EM-stofuna segist hún ekki vera með massív plön en það sé þó eitt og annað á dagskrá. 

„Sumarið er óráðið fyrir utan ferð til Barcelona um Verslunarmannahelgina. Ég hugsa að ég leyfi mér að hvíla mig smá eftir þessa törn og hitti fólkið mitt og knúsi í sumar. Vonandi gefur Ísland okkur gott veður og þá langar mig að njóta þess í sundlaugunum og víðar. Það væri gaman að fara í útilegu og sumarbústað og bara njóta þess að vera til. Ég hef aldrei verið sérstaklega dugleg að gera plön langt fram í tímann svo ég yfirleitt fylgi bara vindinum sem feykir mér. Sjáum hvað gerist.“

Birkir Bjarnason og Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir.
Birkir Bjarnason og Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál