Í bílstjórasæti í eigin lífi

Margrét Jónsdóttir Njarðvík.
Margrét Jónsdóttir Njarðvík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fermingin er eitt fyrsta skref barnsins inn í heim fullorðinna og oft vilja aðstandendur gefa unglingnum sínum tækifæri til að ferðast, sjá sig um og þroskast. Sumarbúðir sem Margrét Jónsdóttir Njarðvík er með á Spáni eru athyglisverð leið til að gera slíkt ferðalag að veruleika.

„Þetta hófst þannig að ég á þrjá pilta sem ég vildi „ljá vængi“, senda þá út í heim. Eins og það er auðvelt að gefa börnunum sínum rætur er það erfitt að senda þau út í heim,“ segir Margrét Jónsdóttir Njarðvík, sem rekur ferðaskrifstofuna Mundo.

„Ég tók því til minna ráða og stofnaði sumarbúðir fyrir börn á fermingaraldri árið 2010. Það gerði ég í þorpinu Zafra, þar sem ég var skiptinemi sem unglingur á vegum AFS. Ég á þarna vinkonur sem ég hef haldið tengslum við. Ein þeirra var bæjarstjóri og önnur skólastjóri. Ég hafði samband við þær og bað þær að finna góðar fjölskyldur sem vildu taka við íslenskum unglingum. Þessar sumarbúðir mínar eru eins konar afbrigði af AFS-dvöl, bara miklu styttri og í sjálfu sér góður undirbúningur undir lengri dvöl ef svo ber undir. Ef unglingur er ánægður með að dvelja í sumarbúðum á Spáni í þrjár vikur gæti það verið vísbending um að honum myndi líka skiptinemadvöl þegar þar að kæmi.

Búið er stytta framhaldsskólanám og minnka tungumálakennslu þannig að foreldrar á Íslandi verða að taka til sinna ráða ef þeir vilja gefa börnum sínum kost á að læra tungumál þannig að gagn sé að. Í sumarbúðunum læra börnin spænsku í fjórar klukkustundir á dag og svo sækja þau leiðtoganámskeið.“

Hvers vegna leiðtoganámskeið?

„Það er töluvert mál að senda ungling á framandi slóðir og leiðtoganámskeiðið styrkir þau við nýjar aðstæður og hjálpar þeim að vinna með bestu útgáfuna af sjálfum sér. Slíkt námskeið hjálpar þeim gífurlega við að eignast nýja vini og takast á við eigið sjálf í breyttu umhverfi.

Einnig fara krakkarnir í alls kyns skoðunarferðir og þær eru hugsaðar út frá menntun og skemmtun. Fari maður til dæmis með hópinn í vatnsrennibrautargarð þá kynni ég þau fyrir rómverskum rústum á eftir og segir þeim frá menningu Rómverja. Ég kenni þeim með öðrum orðum að lesa í sögu og umhverfi og mikilvægi þess að setja innihald í ferðalög.

Við erum einnig með í sumarbúðunum íþróttir, leiki og listasmiðju. Krökkunum er skipt upp í hópa og íþróttirnar eru ekki bara keppnisíþróttir heldur ætlaðar til að allir fái að reyna sig við sem flest á íþróttasviðinu.

Vissulega fara krakkarnir út fyrir sinn þægindaramma en það er einmitt í því sem áskorunin felst, að vaxa hratt á skömmum tíma. Það góða er að hver og einn býr heima hjá jafnaldra sínum spænskum. Á morgnana fer íslenski krakkinn á spænskunámskeið en sá spænski fer á enskunámskeið og svo fara þessir krakkar saman til að taka þátt í dagskránni yfir daginn. Í stað þess að borga spænsku fjölskyldunum fyrir að taka við íslensku börnunum þá taka spænsku unglingarnir þátt (býð ég upp ókeypis námskeið fyrir spænska unglinginn) gegn því að fjölskylda hans passi íslenska ungmennið sem henni er trúað fyrir.

Setja sér markmið á leiðtoganámskeiðinu

Kennir þú spænskuna?

„Nei, ég kenni leiðtoganámskeiðið og er yfir og allt um kring en er með tvo spænskukennara. Ég vil vera til staðar og halda vel utan um hópinn. Ég hef mikla reynslu í kennslu og samskiptum við unglinga. Ég kenndi í tuttugu og fimm ár, kenndi meðal annars í MR, Verslunarskóla Íslands og Kvennaskólanum. Ég hef einnig starfað við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Það er líklega kúnstin – að starfa við það sem maður kann og hefur ástríðu fyrir. Ég fór til Spánar sem skiptinemi árið 1984 og á rætur þar síðan. Ég skrifaði doktorsritgerð mína um eina af bardagahetjum Spánverja. Ég þekki því vel til á þessum vettvangi,“ segir Margrét.

Hvað eru margir sem hafa verið í sumarbúðum Mundo?

„Þeir skipta hundruðum unglingarnir sem hafa verið í sumarbúðunum okkar. Fyrst var ég með starfsemina í gamla þorpinu mínu Zafra en svo þurfti ég að bæta við því það seldist upp í ferðirnar þannig að starfsemi sumarbúða Mundo fer fram í tveimur þorpum núna – hitt þorpið heitir Aranda de Duero sem er tvö hundruð kílómetra norður af Madríd. Þar er ég einnig með góð sambönd sem tryggja góðar fjölskyldur.

Ég væri ekki að þessu ef ég tryði ekki svona á mikilvægi þess. Krakkarnir fá meiri trú á sjálfum sér og fyllast metnaði. Ég læt þau setja sér markmið á leiðtoganámskeiðinu og hitti þau svo aftur í janúar í pizzuveislu og þá er gaman að sjá þegar þau opna umslögin sín. Þau skrifa niður markmiðin í tvíriti, annað hafa þau sjálf en hitt geymi ég í lokuðu umslagi. Þegar þau sjá hve vel þeim hefur miðað í átt að markmiðunum þá verða þau svo glöð. Leiðtoganámskeiðið fyllir þau ekki aðeins metnaði í skóla heldur hafa þau líka sett sér sem markmið að bæta samskipti við fjölskyldu og vini. Þau ná að hugsa um stöðu sína á námskeiðunum á Spáni og velta því fyrir sér hvað þau geti gert til að gera líf sitt og fjölskyldunnar betra og innihaldsríkara.

Hver er sinnar gæfu smiður

Á fermingaraldri stendur fólk á krossgötum og hugsar þá gjarnan um hvernig samskipti þess eru við sína nánustu, hvernig það kemur fram við líkama sinn og hvað það setur inn fyrir varir sínar. Það lendir til dæmis enginn í að byrja að drekka. Slíkt er ákvörðun. Ég ræði um mataræði og afstöðu til náms og áfengis svo eitthvað sé nefnt. Ég drekk ekki sjálf og allir sem taka þátt í sumarbúðastarfinu þurfa að undirrita loforð um að koma ekki nálægt áfengi eða öðrum vímuefnum.

Það er ekki sjálfsagt að komast til manns og það að sækja leiðtoganámskeið hjálpar krökkum að átta sig á þeim breytingum sem í vændum eru. Það er mikill áfangi að unglingur skilji að hann getur verið í bílstjórasæti í eigin lífi. Fólk á val hvort það verður gerandi eða þolandi. Ég trúi því að hver sé sinnar gæfu smiður.“

Hvernig gengur að finna heimili fyrir unglinga þarna ytra?

„Fyrir fyrsta námskeið sumarbúða Mundo var ég að velta fyrir mér að hafa kojur heima hjá vinkonum mínum en um leið og Spánverjarnir skildu hvað þeir fengju mikið út úr því að taka þátt í þessu starfi fóru þeir að sækjast eftir að taka þátt í því. Nú er svo komið að ég er stoppuð á götu og spurð hvort ekki vanti fjölskyldu til að hýsa íslensku krakkana, við erum komin með biðlista í þorpunum nú í mars því allir vilja vera með í sumarbúðastarfinu.“

Finna í mér hald og traust

Ertu með sams konar starfsemi hér á Íslandi?

„Já, ég rek sumarbúðir hér fyrir spænska unglinga og þeir sem opna heimili sín fyrir þeim fá ókeypis á námskeiðið fyrir sína eigin unglinga. Þótt starfið sé svona skipulagt kostar að fara í sumarbúðir á Spáni. Núna kostar námskeiðið þar í þrjár vikur 459 þúsund. Fyrir það fá þau flug, heimilisdvöl, öll námskeiðin og ferðirnar sem og ferð á ströndina. Þau þurfa aðeins að hafa með sér smávegis af vasapeningum að auki.

Mikill áhugi hefur verið á þessum námskeiðum en ég tek ekki alla inn. Áður en krakkarnir eru skráðir sem þátttakendur ræði ég við þá og fæ á hreint hvort þeir vilji og telji sig geta verið burtu frá fjölskyldunni þessar þrjár vikur. Það eru ekki allir sem hafa kjark til að fara frá sínum og það verður að vera vilji krakkanna en ekki foreldranna að fara. Af sömu ástæðum bið ég foreldra að hringja ekki í börn sín fyrstu fjóra dagana. Þá er ég til staðar og í mér finna þau hald og traust. Ég bið börnin að taka ekki með sér tölvu en þau koma með símana sína og fá í þá spænsk símakort þannig að ég get alltaf verið í sambandi við alla hvenær sem er. Fyrsta vikan er venjulega erfið, þá eru þau að átta sig á staðháttum og tungumálinu og kynnast krökkunum í hópnum. Næsta vika er svo frábær og undantekningarlaust fara þau heim grátandi af söknuði eftir félögum og þeirri skemmtun sem sumarbúðirnar hafa fært þeim.“

Hvaða börn koma helst í sumarbúðir Mundo?

„Fermingarbörnin eru mörg, stundum skjóta ættingjar saman til þess að þau geti farið í sumarbúðir á Spáni. Til mín koma einnig íslenskir krakkar sem eru búsettir í útlöndum og ungmenni allt að 18 ára. Með því að taka þátt í sumarbúðastarfinu kynnast þau íslenskum jafnöldrum og eignast vini meðal þeirra. Íslendingar eru margir meðvitaðir um mikilvægi menntunar og vilja að börn sín læri spænsku og kynnist þar landi og þjóð auk þess sem hægt er að nota málið í 25 löndum. Ég er alltaf með tvö námskeið á sumrin, það fyrra í júní en hið seinna í júlí. Einnig er ég með skiptinemadvöl á Spáni, Þýskalandi og í Bandaríkjunum. Heimasíðan er mundo.is og þar eru allar upplýsingar. Fólk sem sjálft hefur tekið þátt í sumarbúðastarfinu á Spáni er duglegt að senda börn sín til okkar. Spánverjar eru mikið fjölskyldufólk og passa vel upp á börn og unglinga.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál