Innblásin af „Murder She Wrote“

Eygló Margrét Lárusdóttir hannar föt undir nafninu EYGLO.
Eygló Margrét Lárusdóttir hannar föt undir nafninu EYGLO. Ljósmyndari / Hanna Andrésdóttir

Eygló Margrét Lárusdóttir ákvað ung að verða fatahönnuður, enda segist hún hafa farið að þróa með sér furðulegan smekk á unglingsárunum og ómögulega getað fundið flíkur við sitt hæfi. Eygló er einnig verslunareigandi, því hún rekur verslunina Kiosk á Laugavegi, ásamt fleiri hönnuðum.

Eygló gaf sér tíma til að sitja fyrir svörum.

Er erfitt að starfa sem fatahönnuður á Íslandi?

 „Já þetta er líklega einn minnsti markaður í heimi. Getur verið erfitt að finna efni og þess háttar. Þökk sé internetinu og ferðamönnunum sem koma hingað, þá er þetta hægt.“

Hvaðan færð þú innblástur?

„Fyrir seinustu línuna mína fékk ég innblástur þegar ég sá þátt af „Murder She Wrote“ í sjónvarpinu. Jessica Fletcher á stað í hjarta mínu svo það var gaman að vinna að þessari línu. Alls konar morðtól og fórnarlömb sem ég notaði í munsturgerð. Stórskemmtilegt alveg hreint. Þetta hefur komið úr öllum áttum. Þess vegna er þemað vanalega mjög ólíkt í hverri línu sem ég vinn með.“

Hvað finnst þér skemmtilegast við starfið þitt?

„Svona fyrir egóið þá er voða gaman að fá jákvæð viðbrögð við einhverju sem maður er ánægður með. Ég er ein þeirra sem á Kiosk á Laugaveginum, svo ég hitti kúnnana einu sinni í viku. Annars finnst mér rosa gaman að byrja á nýju verkefni og vera full af innblæstri. Á barmi sköpunar vil ég kalla það. Það eru sko alveg teknar dýfur í hina áttina líka nefnilega.“

Hvaða efnivið finnst þér skemmtilegast að vinna með?

„Nú er ég rosa hrifin af efni sem ég keypti frá Japan. Það er gervirúskinn, grænt öðrum megin, brúnt hinum megin. Það er rosa gaman að gera tilraunir með það til dæmis með laserskurði, verður mjög þrívítt.“

Áttu þér einhverjar fyrirmyndir, eða fólk sem þú lítur upp til?

„Já já. Vivienne Westwood og Vigdís Finnbogadóttir eru svona konur sem ég lít mikið upp til.“

Hver er uppáhaldsliturinn þinn?

„Appelsínugulur núna. Hataði þennan lit einu sinni.“

Hvaða flík, eða verkefni, ert þú stoltust af?

„Ég er mjög stolt af sundbolunum mínum sem ég gerði fyrir nokkrum árum. Svo er ég mjög ánægð með Murder She Wrote-línuna í heild sinni, og þá sérstaklega Jessicu Fletcher-jakkann og röndótta prjónakjólinn sem ég kalla Litla-Hraun.“

Hvaða tískustraumar verða áberandi í vetur?

„Grænn, prjón, print. Við í Kiosk erum alla vega á þessum nótum núna.“

Eygló rekur verslunina Kiosk ásamt fleiri hönnuðum.
Eygló rekur verslunina Kiosk ásamt fleiri hönnuðum. Ljósmynd / Eygló Margrét Lárusdóttir

Hvað finnst þér gaman að gera í frístundum þínum, þegar þú ert ekki að hanna föt?

„Fara í göngur úti í náttúrunni, bjóða vinum heim í mat, hanga í bókabúðum. Drekka vín og dansa. Má maður segja svona?“

Átt þú þér einhvern eftirlætis stað, innanlands sem utan?

„Hálendi Íslands er alveg magnað! Fór í þrjár ferðir í sumar. Langisjór er ótrúlegur staður til dæmis. Það var auðvelt að fá innblástur í Tokyo, fagurfræðin er alveg ofan í minnstu smáatriðunum.“

Hvernig væri uppskrift þín að fullkomnum degi?

„Fer í sund með syninum og kærastanum. Ég fæ einhverja svakalega hugmynd að nýjum textíl í sjóðheitri sánunni, næ að prufa mig áfram og fæ brjálaðan innblástur yfir daginn. Fer svo á einhverja rosalega skemmtilega menningaropnun þar sem flestir vinir mínir eru samankomnir. Fæ eitthvað merkilega gott að borða í kvöldmat. Er farin að sofa fyrir miðnætti.“

Hvað er á döfinni?

„Kiosk er að fara að vera með pop-up í Japan í nóvember og ég og Helga Lilja förum þangað að fylgja því eftir. Ég fór líka þangað í vor, bjóst ekki við að fá að fara til Tokyo svo fljótt aftur. Svo verð ég með fatahönnunarnámskeið í Klifinu í lok október fyrir 10-15 ára. Þau eru vægast sagt mjög skemmtileg, en ég hef verið með tvö námskeið áður. Svo eru önnur spennandi samstarfsverkefni fram undan sem ég bara þori ekki að tala um strax.“

Eygló fylltist andagift þegar hún horfði á þáttinn „Murder She …
Eygló fylltist andagift þegar hún horfði á þáttinn „Murder She Wrote“, og sést það glögglega á flíkunum. Ljósmyndari / Rafael Pinho
Kjóll úr línunni Murder She Wrote, sem heitir í höfuð …
Kjóll úr línunni Murder She Wrote, sem heitir í höfuð sjónvarpsþáttanna. Ljósmyndari / Rafael Pinho
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál