Tekur kynþokkafullar myndir sem „auka sjálfstraust“

Ljósmyndarinn Hildur Heimisdóttir heldur úti vefsíðunni bombshellbyhildur.com, þar er hægt …
Ljósmyndarinn Hildur Heimisdóttir heldur úti vefsíðunni bombshellbyhildur.com, þar er hægt að sjá sýnishorn af verkum hennar. www.bombshellbyhildur.com

„Ég er þroskaþjálfi og lýðheilsufræðingur (MPH) að mennt ásamt því að vera með diploma í „sexology“ og ljósmyndun,“ segir ljósmyndarinn Hildur Heimisdóttir, sem sérhæfir sig m.a. í því að taka kynþokkafullar myndir af konum. Hún segir slíkar myndatökur auka sjálfstraust kvenna.

„Hugmyndin kviknaði þegar ég bjó í París. Þar er útlitsdýrkun mikil og flestar konur ósáttar við útlit sitt og/eða holdafar. Mér finnst þetta fráleit þróun, hvernig við getum endalaust talað niður til okkar og berum þessar skoðanir okkar oftast ómeðvitað í börnin okkar, sem bera þetta svo áfram til komandi kynslóða. Hugmyndin byggist mest á því að efla sjálfstraust og sjálfsmynd kvenna, þannig held ég að við getum best leiðrétt þessa þróun. Ósk mín er að allar konur upplifi sig kynþokkafullar og fallegar og er von mín sú að þær beri það með sér út í lífið. Við eigum bara eitt líf og einn líkama og það er algjör synd að vera óánægðar með það sem við höfum. Fögnum því frekar,“ segir Hildur.

Myndatakan fer venjulega fram heima hjá konunum að sögn Hildar. „Einfaldlega vegna þess að þar líður þeim best. Eins hef ég tekið myndir á öðrum stað, eins og t.d. á hóteli. Nokkrum dögum áður en takan fer fram höfum við hist og rætt óskir hennar og önnur praktísk atriði eins og fatnað og svo framvegis. Konan fær hárgreiðslu og förðun ef hún vill fyrir tökuna og svo förum við bara í það að taka myndir,“ segir Hildur þegar hún er spurð út í hvernig svona myndataka fer fram. „Ég er í samstarfi við Herdísi Mjöll förðunarfræðing og Dagbjörtu Ósk hárgreiðslumeistara, sem eru virkilega færar í sínu fagi. Saman drögum við það allra besta fram í útliti konunnar. Þetta verður ógleymanleg reynsla fyrir hana.“

Gott að stíga út fyrir þægindarammann

„Flestar konur eru sammála um að þær séu að stíga vel út fyrir þægindarammann þegar þær fara í svona myndatöku. En margar konur tala um að þær hafi alltaf langað í svona töku en aldrei þorað að fara eða vitað hvert þær eiga að leita. Ég segi oftast við þær að lífið byrji þegar þú stígir út fyrir kassann. Þær eru vitaskuld örlítið stressaðar þegar við byrjum en það er bara skammur tími. Undir lokin eru þær farnar að hafa skoðanir á tökunni og það er yndislegt. Engin hefur séð eftir því að fara í þessa myndatöku og hafa þær alltaf verið mjög ánægðar, jafnvel svo að það hafa fallið nokkur tár. Oft trúir konan því ekki að þessi fallega manneskja á myndinni sé hún sjálf. En þá er markmiðinu náð - þegar þær sjá sjálfar sig líkt og ég sé þær. Umfram allt reynum við að hafa tökuna skemmtilega, höfum tónlist og sumar konur kjósa að hafa einhverja nákomna sér með, vinkonu eða systur sér til halds og trausts. Þetta er hin besta skemmtun,“ útskýrir Hildur, sem segir augljóst að svona myndataka hafi góð áhrif á sjálfstraust kvennanna. „Já, þetta eykur sjálfsálit og sjálfstraust. Tvo þætti sem flestar konur þyrftu að fá góðan aukaskammt af.“

En hvað gera konurnar svo við myndirnar? „Flestar gera þetta fyrir sjálfar sig en margar gefa maka sínum myndirnar, sem er yndislega falleg gjöf og eflaust nokkuð sem ekki er von á. Flestar konurnar halda þessu leyndu fyrir þeim vegna þess að þær vilja gefa þeim þessa fallegu gjöf fyrir afmæli, brúðkaupsafmæli, morgungjöf, jólagjöf eða sem „af því bara“-gjöf. Það er yndislegt að heyra af viðbrögðum makanna þegar þær hafa gefið þeim albúmið. Algjörlega ómetanlegt,“ segir Hildur að lokum.

Áhugasamir geta skoðað heimasíðu Hildar og lesið nánar um það sem hún gerir á slóðinni BombshellbyHildur.com.

Hildur segir flestar konur sem koma til hennar vera sammála …
Hildur segir flestar konur sem koma til hennar vera sammála um að þær þurfi að stíga út fyrir þægindaramman til að láta verða af því að fara í myndatöku hjá henni. Hildur Heimis/www.bombshellbyhildur.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál