Víkingur - ÍA 0:3

Þórður Guðjónsson í baráttu við varnarmann Víkings í Víkinni í …
Þórður Guðjónsson í baráttu við varnarmann Víkings í Víkinni í kvöld. Sverrir Vilhelmsson

Nú er lokið viðureign Víkings og ÍA á Víkingsvelli, en þetta var upphafsleikur 8. umferðar efstu deildar karla í knattspyrnu, Landsbankadeildar. ÍA vann öruggan 3:0 sigur og var þetta um leið annar sigur liðsins í röð í deildinni. Þar með hafa Skagmenn komist upp í miðja deildina með 11 stig. Víkingur er enn með 8 stig.

5. Grétar Sigfinnur Sigurðarson skallar knöttinn að marki ÍA þar sem Bjarni Guðjónsson kemst í veg fyrir knöttinn og forðar því að Skagamenn lendi undir.

15. Bjarni Þórður Halldórsson, markvörður Víkings, verður að fara af leikvelli eftir að hafa fengið högg á höfuðið. Magnús Þór Magnússon, varamarkvörður Víkings, kemur í stað Bjarna Þórðar. Fram að þessu hafa Víkingar verið heldur sterkari. Bjarni Þórður fékk skurð á höfuðið og var fluttur á sjúkrahús. Hann var með meðvitund. Illa gekk hins vegar að fá sjúkrabíl á staðinn. Að sögn Arnar Magnússonar, framkvæmdastjóra Víkings, liðu 25 mínútur frá því að hringt var eftir sjúkrabíl þar til hann kom á staðinn á Víkingsvöllinn í Fossvogi. 26. 0:1. Króatinn Svadumovic skoraði fyrir Skagamenn á 26. mínútu með skoti af stuttu færi eftir aukaspyrnu Bjarna Guðjónssonar. 45. Á síðustu andartökum fyrri hálfleiks bæta Skagamenn við öðru marki. Aftur var Svadumovic á ferðinni. Hann skorar eftir að hafa fengið sendingu frá Páli Gísla Jónssyni, markverði ÍA, sem skaut langt frá marki. Á leiðinni til Svadumovic skoppaði boltinn yfir Þorvald Svein Sveinsson, varnarmann Víkings. 65. Jón Vilhelm Ákason skorar þriðja mark ÍA þegar hann skallar boltann í markið eftir sendingu frá Andra Júlíussyni sem var nýkominn inn á sem varamaður fyrir Þórð Guðjónsson. Ítarlega verður fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert