Kristján: Sjálfstraustið alltaf að vaxa

Rasmus Hansen hjá Val og Þórarinn Kristjánsson hjá Keflavík eigast …
Rasmus Hansen hjá Val og Þórarinn Kristjánsson hjá Keflavík eigast við í leiknum í dag. mbl.is/Brynjar Gauti

„Það er erfitt að segja akkúrat núna hvort þetta sé unnið stig eða tvö töpuð en mér fannst við eiga möguleika á að gera út um þetta í fyrri hálfleik," sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Keflvíkinga eftir jafnteflið, 1:1, við Íslandsmeistara Vals að Hlíðarenda í Landsbankadeildinni í knattspyrnu í dag.

„Ég tel að við hefðum átt að ná tveggja marka forskoti í fyrri hálfleiknum og það hefði dugað okkur - við hefðum varið það í seinni hálfleik. En það var ekki okkar leikstíll sem við duttum í eftir hlé. Þá vorum við alls ekki nógu djarfir í því að halda boltanum og spila honum, eins og við gerðum í fyrri hálfleik, og fyrir vikið lentum við alltof aftarlega á völlinn.

Þetta var mikið til okkur að kenna en það kom líka til að Valsmenn gerðu tvær breytingar á sínu liði í hálfleik. Þeir settu inn tvo sókndjarfa menn sem komu með aðra hugsun inní leikinn, og það skipti líka máli," sagði Kristján við fréttavef Morgunblaðsins.

Keflvíkingar voru síðan tvívegis nærri því að skora undir lok leiksins, manni fleiri, en þá small boltinn í þverslá og stöng Valsmarksins eftir hörkuskot frá Hans Mathiesen og Einari Orra Einarssyni.

„Já, við áttum von á því að fá góð færi aftur á lokakaflanum, vorum búnir að lesa það útúr Valsliðinu að það myndi þreytast þegar á leið, eftir erfitt ferðalag í Evrópukeppninni fyrir helgina. En þá vantaði okkur herslumuninn til að koma boltanum í markið.

En við erum áfram efstir eftir þessa umferð og það er verulega skemmtilegt að vera í þeirri stöðu eftir leik númer tvö við Íslandsmeistarana. Sjálfstraustið er alltaf að vaxa í liðinu og það hafa allir trú á því sem liðið er að gera. Við fáum mikinn stuðning og það var næstum því eins og að vera á heimavelli að spila hér á Hlíðarenda í dag, og þannig hefur þetta verið í síðustu útileikjum okkar. Við hlökkum til að spila alla leiki, okkur finnst gaman að vera saman og spila fótbolta, og það er lykilatriðið," sagði Kristján Guðmundsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert