Símun hættur hjá Keflvíkingum

Símun Samuelsen hefur verið lykilmaður hjá Keflvíkingum undanfarin ár.
Símun Samuelsen hefur verið lykilmaður hjá Keflvíkingum undanfarin ár. mbl.is

Símun Samuelsen, færeyski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu sem hefur leikið með Keflvíkingum undanfarin ár, er hættur hjá félaginu og er á leið heim til Færeyja.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu sem knattspyrnudeild Keflavíkur og Símun sendu frá sér, og hljóðar þannig:

„Knattspyrnudeild Keflavíkur og Símun Samuelsen hafa komist að samkomulagi um að Simun fari frá Keflavík til heimalands síns Færeyja af persónulegum ástæðum og af ósk Simuns.

Knattspyrnudeildin þakkar Símun kærlega fyrir þau tæp fimm ár sem hann hefur verið hjá Keflavik og óskar honum alls hins besta á nýjum vettvangi.“

Brotthvarf Símuns er mikill missir fyrir Keflvíkinga en hann hefur leikið fyrir þá 74 leiki í úrvalsdeildinni og skorað í þeim 18 mörk. Símun á að baki 27 landsleiki fyrir Færeyjar.

Símun kom til liðs við Keflvíkinga frá VB/Sumba í lok júlí 2005, þá nýorðinn tvítugur. Hann hefur spilað með þeim síðan, nema hvað hann var lánaður til norska 1. deildarliðsins Notodden undir lok tímabilsins 2007 og var þá ekki með í síðustu þremur umferðunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert