Leikurinn snýst fyrst og fremst um stolt FH-inga

Heimir Guðjónsson og aðstoðarþjálfari FH, Jörundur Áki Sveinsson.
Heimir Guðjónsson og aðstoðarþjálfari FH, Jörundur Áki Sveinsson. mbl.is/Ómar

„Þessi leikur snýst fyrst og fremst um stolt FH-liðsins. Við verðum að sýna fram á að við getum spilað almennilegan leik og verið með í þessari keppni af alvöru,“ segir Heimir Guðjónsson, þjálfari Íslandsmeistara FH, um síðari leikinn við FC BATE Borisov frá Hvíta-Rússlandi sem fram fer í Kaplakrikavelli í kvöld og hefst kl. 19.15.

Leikurinn er liður í annarri umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.

Möguleikar FH-ingar eru e.t.v. ekki miklir eftir stórtap, 5:1, í fyrri viðureign liðanna í Hvíta-Rússlandi í síðustu viku. „Við lékum fínan síðari hálfleik ytra en það var ekki nóg. Leikurinn stendur yfir í 90 mínútur og það snýst um að leika vel allan leiktímann.

Við þurfum á góðum leik að halda til þess að koma okkur inn á beinu brautina á nýjan leik. Við lékum illa gegn Val í deildinni á sunnudaginn og þurfum svo sannarlega að komast inn á rétta sporið aftur,“ segir Heimir.

„Að sjálfsögðu munum við leggja allt í sölurnar til þess að klóra í bakkann. Við verðum að spila betur í lengri tíma en í fyrri leiknum til þess að ná hagstæðum úrslitum,“ segir Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert