„Ef að menn eru ekki með hnút í maganum er eitthvað að“

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH. mbl.is/Ómar

„Bæði lið hafa spilað sóknarbolta í sumar og hafa mæst einu sinni í sumar þar sem leikurinn fór 3:2. Ég á því von á að þetta verði skemmtilegur leikur líka,“ sagði Heimir Guðjónsson þjálfari FH í samtali við mbl.is, en liðið mætir KR í bikarúrslitaleik karla á Laugardalsvelli á morgun kl. 18.

Búast má við hörkuleik á morgun enda mætast tvö af bestu liðum landsins síðustu ár sem þar að auki hafa verið á góðu skriði í Pepsideildinni.

„Við Rúnar erum góðir félagar“

„KR-liðið hefur tekið stakkaskiptum undir stjórn Rúnars Kristinssonar og það hefur greinilega orðið einhver hugarfarsbreyting hjá liðinu. Það vita það allir að KR-liðið er með frábæra fótboltamenn en Rúnari hefur tekist að búa til liðsheild sem þarf að vera í fótbolta. Núna er okkar að finna lausnir á því hvernig hægt er að opna vörn KR sem hefur verið firnasterk í síðustu leikjum.

Við Rúnar erum góðir félagar og spiluðum saman í gegnum alla yngri flokkana í KR og í meistaraflokknum líka, en ég hugsa ekkert um það núna. Hann er bara í sinni vinnu hjá KR og ég í minni vinnu hjá FH, og ég er bara að hugsa um hvernig er best að stöðva leikmenn KR,“ sagði Heimir sem tekur undir að sitt lið hafi einnig bætt sig að undanförnu.

„Mega ekki gleyma sér“

„Auðvitað höfum við verið að bæta okkur eftir því sem liðið hefur á sumarið, sem er jákvætt, en það er stutt á milli í fótbolta og menn mega ekki gleyma sér. Við þurfum að einbeita okkur algjörlega að þessum úrslitaleik og gleyma deildinni í bili,“ sagði Heimir. Eflaust verður það vandasamt verk fyrir hann og aðra að halda spennustiginu niðri fyrir þennan stórleik enda þótt FH-ingar séu orðnir vanir því að landa titlum.

„Ef að menn eru ekki með hnút í maganum fyrir svona úrslitaleik þá er eitthvað að en þetta snýst um að stjórna spennustiginu. Það hafa auðvitað margir leikmenn FH spilað stóra leiki en þannig er það líka hjá KR og ég held að það sé jafnt á komið með liðunum í því,“ sagði Heimir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert