Stærsta prófraun KR-inga á sumrinu?

KR-ingarnir Óskar Örn Hauksson, Kjartan Henry Finnbogason, Viktor Bjarki Arnarsson, …
KR-ingarnir Óskar Örn Hauksson, Kjartan Henry Finnbogason, Viktor Bjarki Arnarsson, Bjarni Guðjónsson mbl.is/Ómar Óskarsson

Stærsta prófraun sumarsins bíður KR-inga á morgun. Þeir eru taplausir í fyrstu 16 leikjum sínum á Íslandsmótinu í knattspyrnu en verði þeir það áfram eftir heimsókn í Kaplakrikann hafa Vesturbæingarnir rutt stórri hindrun úr vegi sínum í átt að Íslandsmeistaratitlinum – sem flestir spá þeim.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um viðureignir FH og KR undanfarin ár. Þar hafa Hafnfirðingarnir löngum haft betur og KR hefur t.d. aðeins sótt einn sigur í Kaplakrikann í síðustu ellefu heimsóknum. Þeir höfðu líka tapað fyrir FH sjö ár í röð á heimavelli þar til þeir sneru þeim álögum við á KR-vellinum fyrr í sumar þegar KR vann þar sætan sigur, 2:0, með mörkum Baldurs Sigurðssonar og Viktors Bjarka Arnarssonar.

Þeir Baldur og Viktor verða hins vegar báðir fjarri góðu gamni á morgun. Þeir eru báðir í leikbanni og þar er skarð fyrir skildi í liði KR-inga.

Eftir skell í síðasta leik, gegn Stjörnunni, er leikurinn á morgun jafnframt síðasta hálmstráið fyrir Heimi Guðjónsson og hans menn í FH, ætli þeir að halda lífi í veikri von um að ná titlinum úr höndum KR, eða þá ÍBV, þetta haustið.

Þetta er fyrsti stórleikurinn af þremur á milli þriggja efstu liðanna á lokaspretti deildarinnar. KR-ingar fara til Eyja um næstu helgi og FH tekur á móti ÍBV í 21. og næstsíðustu umferðinni sunnudaginn 25. september. Í þessum þremur leikjum fara úrslitin í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn langt með að ráðast.

Sjá nánari umfjöllun um leiki helgarinnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert