„Búið vel um þetta“

Tryggvi Guðmundsson fagnar marki gegn KR.
Tryggvi Guðmundsson fagnar marki gegn KR. Árni Sæberg

„Þau fara nú að verða heldur þreytt öll þessi höfuðmeiðsli mín,“ sagði Eyjamaðurinn Tryggvi Guðmundsson, þegar Morgunblaðið tók púlsinn á honum.

Tryggvi fékk sem kunnugt er myndarlegan skurð á höfuðið eftir um það bil korter í stórleik FH og ÍBV í næstsíðustu umferð Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu. Átján spor þurfti til að loka sárinu.

Tryggvi segir höggið ekki hafa verið þungt en hann fékk spark frá FH-ingnum Hákoni Hallfreðssyni, sem fékk gula spjaldið fyrir vikið. „Mér líður ágætlega og leið einnig ágætlega í gær. Mér fannst höggið ekki vera meira en þegar maður lendir í skallaeinvígi þar sem menn rekast aðeins saman. Ég var að gera mig tilbúinn til að standa upp eftir höggið og ætlaði bara að láta Hákon aðeins heyra það og halda áfram. Þá voru auðvitað einhverjir sem sáu þennan skurð og ýttu mér aftur niður. Ég var því með meðvitund allan tímann,“ útskýrði Tryggvi.

Það kemur líklega fáum knattspyrnuáhugamönnum á óvart að Tryggvi hefur hug á því að spila í lokaumferðinni en þá tekur ÍBV á móti Grindavík á Hásteinsvelli.

„Ég er alltaf fullur bjartsýni. Ég missti ekki úr leik þegar ég kinnbeinsbrotnaði en þá vildu aðrir meina að ég ætti að hvíla í 5-6 vikur. Ég græjaði það með þessari frægu grímu en ég veit ekki ennþá hvernig við græjum þetta. Ef þessi leikur væri ekki að fara fram á laugardaginn þá ætti að taka saumana úr mér á föstudaginn. Ætli ég láti ekki saumana vera aðeins lengur og það er væntanlega aðeins öruggara að spila með þá. Væntanlega verður búið vel um þetta og svo mun ég örugglega skora með skalla,“ sagði Tryggvi sem er búinn að jafna markamet Inga Björns Albertssonar í efstu deild.

„Núna snýst þetta ekki um markametið. Það var hundfúlt að fá ekki nema fimmtán mínútur í leiknum á móti FH vegna þess að mér fannst við vera með tökin á leiknum áður en þetta gerðist. Nú er einnig komin upp sú staða að Stjarnan er að setja mikla pressu á okkur varðandi Evrópusæti og þetta er því virkilega mikilvægur leikur. Mér finnst ég þurfa að taka þátt í þessum leik og markametið er algert aukaatriði í þessu samhengi,“ sagði Tryggvi Guðmundsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert