Sænskur kantmaður til Skagamanna

Garðar B. Gunnlaugsson er meiddur og ekki leikfær með ÍA …
Garðar B. Gunnlaugsson er meiddur og ekki leikfær með ÍA í byrjun Íslandsmótsins. mbl.is/Ómar

Skagamenn hafa fengið til liðs við sænskan knattspyrnumann, Joakim Wrele, sem leikur með þeim á komandi keppnistímabili. Hann er væntanlegur til landsins á morgun og vonast Skagamenn eftir því að hann verði löglegur fyrir opnunarleik Íslandsmótsins gegn ÍBV á sunnudaginn.

Wrele er 22 ára gamall, vinstrifótar kantmaður, og ÍA fær hann að láni frá úrvalsdeildarliðinu Halmstad út þetta tímabil. Wrele hefur verið í röðum Halmstad frá árinu 2008. Hann lék 14 deildaleiki með liðinu á síðasta ári og skoraði eitt mark en Halmstad, með Guðjón Baldvinsson og Kristin Steindórsson innanborðs, vann sig þá upp í úrvalsdeildina.

Þórður Guðjónsson, framkvæmdastjóri Knattspyrnufélags ÍA, sagði við mbl.is að Skagamenn hefðu þurft að bæta við hópinn vegna meiðsla. Ólafur Valur Valdimarsson yrði ekkert með liðinu í sumar eftir að hann meiddist illa á hné í vetur og þá mun sóknarmaðurinn Garðar B. Gunnlaugsson ekki hefja tímabilið með ÍA vegna meiðsla í nára. Þórður sagði óljóst hve lengi Garðar yrði frá keppni en það lægi allavega fyrir að hann myndi ekki spila gegn ÍBV á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert