Tekst ÍBV að koma fram hefndum?

Frá viðureign ÍBV og KR í Pepsi-deildinni í maí þar …
Frá viðureign ÍBV og KR í Pepsi-deildinni í maí þar sem KR-ingar fóru með sigur af hólmi, 2:0. mbl.is

Þrír leikir fara fram í átta liða úrslitum í bikarkeppni karla í knattspyrnu í dag og í kvöld.

Í Vestmannaeyjum er sannkallaður stórleikur þegar ÍBV fær KR í heimsókn, Fylkir tekur á móti Stjörnunni og Víkingur, eina liðið úr 1. deild sem eftir er í keppninni, mætir Breiðabliki í Víkinni. Átta liða úrslitunum lýkur svo á mánudagskvöldið þegar 2. deildar lið Gróttu spilar við Framara á gervigrasvellinum á Seltjarnarnesi.

KR-ingar eru ríkjandi bikarmeistarar og annað árið í röð sækja þeir Eyjamenn heim í átta liða úrslitunum. KR hafði betur í rimmu liðanna í fyrra, 2:1, þar sem Óskar Örn Hauksson skoraði bæði mörk KR-inga á síðustu fimm mínútum leiksins. KR-liðið hefur verið óstöðvandi í sumar og vann sannfærandi sigur á ÍBV á Hásteinsvelli í Pepsi-deildinni, 2:0, svo Eyjamenn hafa sannarlega harma að hefna. Bæði lið ollu stuðningsmönnum sínum vonbrigðum í Evrópudeildinni í vikunni en hvort þeir leikir sitji í leikmönnum á Hásteinsvelli á morgun er ekki gott að segja. Altént verður mikið undir og Eyjamenn vilja örugglega ljúka goslokahátíð með því að slá bikarmeistarana út.

Ná Fylkismenn að snúa blaðinu við?

Fylkismenn gætu svo sannarlega snúið blaðinu við með sigri á móti Stjörnunni en frammistaða Árbæjarliðsins í deildinni hefur verið hrein hörmung. Fylkir er eina liðið sem ekki hefur unnið leik í deildinni og situr í fallsæti með 3 stig. Stjörnuliðið hefur hins vegar átt mjög góðu gengi að fagna og strákarnir hans Loga Ólafssonar fara með gott sjálfstraust í Lautina þar sem þeir innbyrtu nauman 1:0 sigur í deildinni í byrjun sumars. Garðbæingar leika án Veigars Páls Gunnarssonar sem tekur út seinni leik sinn í banni og þá tekur bakvörðurinn Tómas J. Þorsteinsson út leikbann í liði Fylkis.

Vinna Víkingar sinn fyrsta heimasigur?

Stuðningsmenn Víkings vildu líklega frekar að sínir menn mættu Breiðabliki á Kópavogsvelli ef mið er tekið af árangri liðsins í Víkinni í sumar. Víkingarnir hafa enn ekki unnið leik í Fossvoginum í 1. deildinni á tímabilinu en uppskera þeirra á heimavelli er þrjú jafntefli og eitt tap. Á góðum degi hafa Víkingarnir sýnt að þeir gætu sómt sér vel í deild þeirra bestu en til þess að slá Blikana út þurfa hlutirnir svo sannarlega að ganga upp hjá liðinu. Blikarnir eru með eitt af bestu liðum landsins og með landsliðsmarkvörðinn Gunnleif Gunnleifsson í því formi sem hann hefur verið í síðustu vikurnar er hætt við að róðurinn geti orðið talsvert þungur fyrir sóknarmenn Víkinga að finna leiðina framhjá honum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert