Jóhann Berg bjargaði stigi með glæsilegri þrennu

Jóhann Berg Guðmundsson sá til þess að Íslendingar náðu jafntefli gegn Svisslendingum með frábærri frammistöðu á Stade de Suisse leikvanginum í Bern í kvöld.

Jóhann Berg gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu og það var hann sem tryggði Íslendingum jafntefli þegar hann jafnaði með glæsilegu skoti skömmu fyrir leikslok.

Frammistaða íslenska liðsins í seinni hálfleik var mögnuð en í upphafi síðari hálfleiks komust Svisslendingar í 4:1. En í stað þess að leggja árar í bát börðust íslensku leikmennirnir til síðasta manns. Kolbeinn Sigþórsson minnkaði muninn í 4:2 og síðan var komið að þætti Jóhanns Bergs sem skoraði tvö síðustu mörkin í leiknum en hann skoraði einnig fyrsta mark Íslendinga í leiknum strax á þriðju mínútu leiksins.

Þrátt fyrir glæsilega frammistöðu féll íslenska liðið niður um eitt sæti. Sviss er í efsta sæti með 15 stig, Noregur er með 11, Ísland 10, Albanía 10 Slóvenía 9 og Kýpur 4.

Lið Íslands: Hannes Þór Halldórsson - Birkir Már Sævarsson, Ragnar Sigurðsson, Kári Árnason, Ari Freyr Skúlason - Birkir Bjarnason, Aron Einar Gunnarsson fyrirliði, Helgi Valur Daníelsson, Jóhann Berg Guðmundsson - Gylfi Þór Sigurðsson, Kolbeinn Sigþórsson.
Varamenn: Gunnleifur Gunnleifsson (m), Hallgrímur Jónasson, Kristinn Jónsson, Sölvi Geir  Ottesen, Alfreð Finnbogason, Jóhann Laxdal, Ólafur Ingi Skúlason, Arnór Smárason, Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Ögmundur Kristinsson (m), Eiður Smári Guðjohnsen.

Lið Sviss: Diego Benaglio - Stephan Lichtsteiner, Steve von Bergen, Haris Seferovic, Granit Xhaka, Valon Behrami, Ricardo Rodríguez, Valentin Stocker, Blerim Dzemaili, Fabian Schär, Xherdan Shaqiri.
Varamenn: Reto Ziegler, Philippe Senderos, Tranquillo Barnetta, Marco Wölfli, Mario Gavranovic, Michael Lang, Josip Drmic, Steven Zuber, Yann Sommer (m), Timm Klose.

Sviss 4:4 Ísland opna loka
90. mín. Jóhann Berg Guðmundsson (Ísland) skorar 4:4 Jááááááááá. Jóhann Berg skorar stórkostleg mark. Hann sneri boltanum frá vítateigslínu upp í vinkilinn. Þvílík frammistaða hjá íslenska liðinu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert