Kolbeinn skaut Íslandi í 2. sætið

Ísland er komið í annað sæti E-riðils undankeppni HM 2014 í fótbolta eftir frábæran sigur á Albaníu, 2:1, fyrir framan kjaftfullan Laugardalsvöllinn í kvöld. Kolbeinn Sigþórsson skoraði sigurmarkið í byrjun seinni hálfleiks.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir íslenska liðið sem lenti undir þvert gegn gangi leiksins á 9. mínútu. Vængmaðurinn Valoet Rama skoraði þá með föstu skoti fyrir utan teig eftir skyndisókn Albana.

Íslensku strákarnir voru þó ekki lengi að jafna metin en það gerði Birkir Bjarnason af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Birki Má Sævarssyni. Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks var íslenska liðið miklu betra og fékk Eiður Smári Guðjohnsen dauðafæri til að bæta við marki.

Jafnt var í hálfleik, 1:1, en Ísland náði forystunni eftir rétt tæpar tvær mínútur í seinni hálfleik. Þá skoraði Kolbeinn Sigþórsson glæsilegt mark með hælspyrnu en fyrirgjöfina átti Birkir Már Sævarsson. Birkir Már spilaði líklega sinn besta landsleik á ferlinum í kvöld.

Leikurinn jafnaðist í seinni hálfleik en íslenska liðið var þó ívið betra. Það spilaði boltanum vel á milli manna og þá var varnarleikurinn mun betri en í undanförnum leikjum. Hannes Þór var einnig traustur í rammanum og hafði mikið vald á teignum.

Birkir Bjarnason var frábær í fyrri hálfleik en hvarf aðeins í þeim síðari. Gylfi Þór Sigurðsson átti flottan leik og stýrði spilinu á miðjunni en þá spiluðu framherjarnir Kolbeinn og Eiður Smári einnig vel. 

Sviss er efst í riðlinum með 16 stig en Ísland í 2. sæti með 13 stig. Slóvenar koma svo næstir með 12, Noregur hefur 11 og Albanía 10 stig. Spennan mikil í E-riðli en Ísland í bílstjórasætinu í baráttunni um annað sætið eftir þennan flotta sigur.

Nánari umfjöllun um leikinn verður í Morgunblaðinu í fyrramálið en myndbandsviðtöl koma inn á mbl.is síðar í kvöld.

Ísland 2:1 Albanía opna loka
90. mín. Uppbótartími verður að minnsta kosti þrjár mínútur. Koma svo!
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert