Eitt skref enn og tveir áfangar eftir

Kolbeinn Sigþórsson í baráttu við albönsku varnarmennina.
Kolbeinn Sigþórsson í baráttu við albönsku varnarmennina. mbl.is/Golli

Annað sæti og tvær umferðir eftir. Íslenska landsliðið í knattspyrnu er með örlögin algjörlega í eigin höndum eftir hinn gífurlega mikilvæga sigur á Albönum, 2:1, á Laugardalsvellinum í gærkvöld. Þrjú stig, sem urðu að vinnast, hvað sem það kostaði, og þeim var siglt tiltölulega örugglega í höfn eftir að Kolbeinn Sigþórsson kom Íslandi yfir með snilldarmarki í upphafi síðari hálfleiksins.

Við getum haldið áfram að láta okkur dreyma. Og í raun meira en það, ef draumurinn snerist fyrst og fremst um það að ná öðru sætinu og komast í umspilið. Auðvitað freistast margir til að hugsa enn lengra og horfa til Brasilíu 2014. Vissulega er möguleiki á því að Ísland verði ein þeirra þrettán Evrópuþjóða sem þangað komast en við skulum bíða með frekari vangaveltur um það.

Nú hreinlega leyfist strákunum ekki að hugsa lengra en til 11. október. Eftir úrslit gærkvöldsins þar sem Norðmenn töpuðu fyrir Sviss og Slóvenía vann Kýpur, gæti þetta hreinlega snúist upp í baráttu Íslands og Slóveníu í lokaumferðinni, ekki Íslands og Noregs eins og vonast var eftir. Það sem nú er allavega orðið öruggt er að leikurinn í Noregi verður úrslitaleikur fyrir Ísland. Bara spurning hvernig staðan verður fyrir hann.

En – næsti mótherji er Kýpur, sem vann Ísland í fyrri umferðinni. Um þann leik og ekkert annað þurfa íslensku landsliðsmennirnir að hugsa næsta mánuðinn. Við hin getum farið á meira flug á meðan og horft lengra fram á veginn.

Sjá nánar umfjöllun um leik Íslands og Albaníu, viðtöl eftir hann, og umsagnir um frammistöðu allra leikmanna íslenska liðsins í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert