Guðbjörg: Átti að gera mikið betur í fyrra markinu

Guðbjörg Gunnarsdóttir stóð í marki Íslands í kvöld þegar það tapaði 2:0 fyrir Sviss í undankeppni HM. Hún var fyrst og fremst svekkt með að hafa ekki varið þegar Sviss komst í 1:0 í leiknum og furðaði sig á vítaspyrnudóminum sem nýttist Sviss til að komast í 2:0.

Þetta var fyrsti leikur Íslands í nýrri undankeppni HM en fyrir fram var búist við að liðið yrði í baráttu við Sviss og Danmörku um efstu tvö sætin í riðlinum.

„Nú erum við búnar að misstíga okkur einu sinni og höfum örugglega ekki efni á að misstíga okkur aftur. Við vissum að Sviss væri með mjög gott lið en mörkin sem við fengum á okkur voru mjög ódýr. Ég ætla ekkert að fela það að ég átti að gera mikið betur í fyrsta markinu. Í seinna markinu veit ég ekki hvar hún [dómarinn] sá hendi. En síðan sköpuðum við ekki nógu mikið fram á við heldur þannig að ég veit ekki hvort við áttum nokkuð skilið út úr þessum leik,“ sagði Guðbjörg.

„Ég hefði átt að sleppa því að stúdera vítaskyttuna svona mikið. Hún skaut til hægri í leiknum á móti Serbíu [um helgina]. Ég hafði á tilfinningunni að hún myndi skjóta til vinstri en fór til hægri fyrst hún skaut þangað síðast. Svona er þetta stundum,“ bætti hún við.

Nánar er rætt við Guðbjörgu í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert