Grétar leit í eigin barm

Grétar Sigfinnur Sigurðarson lék alla leiki KR í deildinni í …
Grétar Sigfinnur Sigurðarson lék alla leiki KR í deildinni í sumar. mbl.is/Eva Björk

Grétar Sigurðarson lék alla deildarleiki Íslandsmeistaraliðs KR í sumar en það virtist ekki vera í spilunum síðasta vetur þegar honum var tjáð að hann yrði aftarlega í goggunarröðinni þetta sumarið. Grétar segir að fyrir vikið sé titillinn sérlega sætur fyrir sig persónulega.

„Jú jú, þeir ætluðu bara að losa sig við mig. Þegar maður lendir í svona aðstæðum þá þarf maður stundum að líta í eigin barm í stað þess að kenna öðrum um. Þrátt fyrir að manni finnist eitthvað ósanngjarnt þá er það ekki alltaf öðrum að kenna. Ég hugsaði út í það hvort ég hlyti ekki að vera að gera eitthvað rangt og kom mér í betra form en ég hafði verið í. Ég lagði harðar að mér og hugsaði betur um matarræðið. Ég ætlaði mér að sýna að ég ætti heima í KR-liðinu og gerði það. Ég var því gríðarlega ánægður með það. Ég er uppalinn KR-ingur og þetta er sá staður sem ég vill vera á. Hjartað er hérna og ég get ekki verið sáttari eftir að hafa lent í þessu mótlæti í vetur. Vonandi hef ég sett fordæmi fyrir aðra því svona lagað gerist á hverju tímabili hjá flestum liðum. Menn þurfa ekki alltaf að hlaupa í burtu heldur geta menn einnig hugsað sinn gang og gert betur,“ sagði Grétar sem átti eitt sitt besta tímabil í efstu deild í sumar og er samningsbundinn KR næsta tímabil. 

„Fyrir mig persónulega þá er þetta klárlega sætasti titillinn þó það hafi einnig verið rosalega gaman þegar við unnum síðast. Vonandi stend ég mig ennþá betur á næsta ári því ég á fullt inni. Þrátt fyrir að ég hafi átt mitt besta tímabil þá voru samt tveir eða þrír leikir sem voru virkilega slakir hjá mér og maður vill gera betur,“ sagði Grétar Sigfinnur Sigurðarson þegar Mbl.is ræddi við hann í dag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert