Síðasta „tvennan“ gegn Noregi fyrir 26 árum

Það hefur varla farið framhjá nokkrum manni að á morgun leikur Ísland sinn mikilvægasta fótboltalandsleik frá upphafi er það mætir Noregi á Ullevål-vellinum í Ósló. Í boði er 2. sætið í E-riðli og leikir í umspili um sæti á HM 2014.

Ísland og Noregur hafa mæst núna í þremur undankeppnum í röð en í fyrri tveimur tókst okkar strákum ekki að bera sigurorð af norska liðinu í fjórum tilraunum.

Í undankeppni HM 2010 mættust liðin á Ullevål 6. september 2008 og skildu jöfn, 2:2, þar sem Heiðar Helguson og Eiður Smári Guðjohnsen skoruðu mörkin. Jafntefli var einnig niðurstaðan í Reykjavík ári síðar, 1:1, en Eiður Smári skoraði mark Íslands í þeim leik.

Í undankeppni EM 2012 mættust liðin fyrst á Laugardalsvelli 3. september 2010 og þá vann Noregur, 2:1. Heiðar Helguson skoraði mark Íslands í leiknum. Ísland tapaði svo útileiknum, 1:0, en það fékk á sig vítaspyrnu í uppbótartíma sem Norðmenn skoruðu sigurmarkið úr.

Nú er aftur á móti komin upp sú staða að Ísland getur unnið báða leikina í undankeppninni gegn Noregi en það gerðist síðast 1987.

Þjóðirnar mættust þá tvívegis í undankeppni EM 1988 sem fram fór í Frakklandi og vann Ísland bæði á Laugardalsvellinum 9. september 1987 og útileikinn í Ósló tveimur vikum síðar.

Heimaleikinn vann Ísland, 2:1, með mörkum Péturs Péturssonar og Péturs Ormslev en Atli Eðvaldsson var svo hetjan á Ullevål þar sem hann skoraði eina mark leiksins.

Ísland getur nú endurtekið leikinn, 26 árum seinna, með sigri á morgun en okkar strákar unnu Noreg í fyrsta leik undankeppninnar á Laugardalsvellinum, 2:0, með mörkum Kára Árnasonar og Alfreðs Finnbogasonar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert