Aldís Kara með þrennu í stórsigri Blika

Aldís Kara Lúðvíksdóttir skoraði þrennu fyrir Blika í kvöld.
Aldís Kara Lúðvíksdóttir skoraði þrennu fyrir Blika í kvöld. Ómar Óskarsson

Tólftu umferð Pepsi-deildar kvenna lauk í kvöld þegar að Breiðablik valtaði yfir FH 6:1 í Hafnarfirði. Aldís Kara Lúðvíksdóttir átti stórleik og skoraði þrennu en með sigrinum minnkaði Breiðablik forskot Stjörnunnar á toppi deildarinnar í 8 stig.

Leikurinn spilaðist nokkuð þægilega fyrir Blika en Telma Hjaltalín Þrastardóttir kom liðinu yfir eftir ellefu mínútna leik. Guðrún Arnardóttir tvöfaldaði forystu Breiðabliks á 52. mínútu en þá opnuðust flóðgáttir hjá báðum liðum. Á 54. mínútu minnkaði Elva Björk Ásþórsdóttir muninn fyrir FH en einungis mínútu eftir það skoraði Aldís Kara Lúðvíksdóttir þriðja mark Blika. 

Aldís Kara bætti svo sínu öðru marki á 71. mínútu áður en Ingibjörg Sigurðardóttir skoraði fimmta mark Blika. Aldís Kara hafði ekki sagt sitt síðasta í leiknum og undirstrikaði frábæran leik sinn með sínu þriðja marki í leiknum á 87. mínútu.

Blikar sitja í 2. sæti í Pepsi-deildinni og hafa 25 stig, fjórum meira en Valur og Þór/KA í 3. og 4. sæti deildarinnar en 8 stigum minna en Stjarnan á toppnum.

FH er hins vegar komið hættulega nálægt fallsæti og hefur 7 stig, tveimur meira en Afturelding í 9. sætinu. Þessi lið munu há einvígi um áttunda og síðasta örugga sætið í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert