Fanndís: Stjarnan löngu búin að vinna

Dóra María Lárusdóttir rennir sér í boltann til að stöðva …
Dóra María Lárusdóttir rennir sér í boltann til að stöðva Telmu Þrastardóttur í leiknum á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári

„Annað sætið er okkar fyrsta sæti núna. Stjarnan er löngu búin að vinna þannig að við verðum bara að líta svona á þetta,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir sem skoraði sigurmark Breiðabliks í 1:0-sigrinum á Val í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Breiðablik er í 2. sæti deildarinnar og nú 5 stigum á undan næstu liðum, en 8 stigum á eftir toppliði Stjörnunnar þegar aðeins 5 umferðir eru eftir.

Leikurinn í kvöld var ansi tíðindalítill lengi framan af en þegar leið á seinni hálfleikinn hófst fjörið. Valskonur björguðu tvisvar á marklínu og Elín Metta Jensen var í tvígang nálægt því að koma þeim yfir.

„Það eina sem þær gerðu í leiknum var að fá þessi tvö dauðafæri og þær hefðu hæglega getað komist yfir, þannig að við vorum eiginlega heppnar að klára þetta í lokin,“ sagði Fanndís.

Fyrsta aukaspyrnumarkið í sumar

„Þessi leikur var ekki mikið fyrir augað. Völlurinn var svolítið erfiður, boltinn skoppaði mikið og bæði lið misstu hann mikið frá sér. Leikurinn spilaðist því ekkert voðalega vel. „Touchið“ hjá báðum liðum var líka bara ekki nógu gott. Hvað okkur varðar þá vorum við bara með OFF-takkann á eiginlega allan leikinn,“ sagði Fanndís.

Markið sitt skoraði hún beint úr aukaspyrnu 10 mínútum fyrir leikslok. Fanndís hafði átt aðra mjög góða aukaspyrnu í fyrri hálfleik.

„Já, var það ekki eina skotið á mark í fyrri hálfleiknum?“ spurði Fanndís létt. „Maður æfir þetta stundum og stundum. Ég var ekki búin að skora úr aukaspyrnu í sumar fyrr en núna þannig að það var gott að ná því,“ bætti hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert