Fjölnir sendi Fram í fallsætið

Guðmundur Steinn Hafsteinsson fyrirliði Fram í baráttu við þrjá Fjölnismenn …
Guðmundur Steinn Hafsteinsson fyrirliði Fram í baráttu við þrjá Fjölnismenn á Laugardalsvellinum í kvöld. mbl.is/Golli

Fjölnismenn komust í kvöld úr fallsæti Pepsi-deildar karla í knattspyrnu þegar þeir unnu sannfærandi sigur á Fram í botnslag á Laugardalsvellinum, 3:1, en þetta var lokaleikur 19. umferðar deildarinnar.

Fjölnir er þá kominn með 19 stig og fer uppfyrir Keflavík og í 9. sætið en Keflvíkingar eru líka með 19 stig og nú í 10. sætinu. Fram situr þá eftir í 11. og næstneðsta sætinu með 18 stig og á framundan leiki við tvö efstu liðin, FH og Stjörnuna.

Fjölnismenn voru ákveðnari strax frá byrjun og það var í samræmi við gang leiksins þegar Gunnar Guðmundsson kom þeim yfir á 26. mínútu með fallegu skoti af 20 metra færi, 0:1.

Aðeins sex mínútum síðar átti Ragnar Leósson langa sendingu inn í vítateig Fram þar sem Þórir Guðjónsson tók boltann laglega niður og sendi hann í hægra markhornið, 0:2.

Þannig var staðan í hálfleik, mjög verðskulduð, og Framarar áttu ekki eitt einasta skot á mark Fjölnis á fyrstu 45 mínútum leiksins.

Vonir Safamýrarliðsins voru síðan nánast að engu orðnar fljótlega eftir hlé. Á 54. mínútu skoraði Ragnar Leósson þriðja mark Fjölnis eftir góðan undirbúning Þóris Guðjónssonar.

Framarar voru aldrei sérlega líklegir til að ógna þessu forskoti og Grafarvogspiltar sigldu sigrinum og stigunum í hús af öryggi.

Frömurum tókst þó að svara fyrir sig á 88. mínútu þegar Aron Bjarnason skoraði með skoti í varnarmann og inn, 1:3.

Nánar er fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kemur út í fyrramálið.

Fram 1:3 Fjölnir opna loka
90. mín. Bara uppbótartíminn eftir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert