Ísland áfram tíunda árið í röð

Íslenska unglingalandsliðið í knattspyrnu, skipað stúlkum 19 ára og yngri, tryggði sér í dag sæti í milliriðli Evrópukeppninnar með því að sigra Króatíu 1:0 í Litháen en þetta er tíunda árið í röð sem Ísland kemst áfram í milliriðil keppninnar í þessum aldursflokki.

Ingibjörg Sigurðardóttir skoraði markið strax á 5. mínútu eftir hornspyrnu frá fyrirliðanum Hrafnhildi Hauksdóttur.

Eftir aðeins hálftíma leik fékk Guðrún Karítas Sigurðardóttir rauða spjaldið fyrir brot. Íslensku stúlkurnar voru því manni færri í klukkutíma en héldu það út og náðu öllum þremur stigunum.

Ísland og Spánn eru með 6 stig hvort, fara  bæði áfram og mætast í úrslitaleik riðilsins á fimmtudaginn. Ísland vann áður Litháen 8:0 en Spánn vann Króatíu 7:0 og Litháen 14:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert