Veigar Páll: Ég skammast mín

Veigar Páll Gunnarsson var sennilega manna fegnastur eftir að Stjarnan tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í karlaflokki í knattspyrnu eftir sigur á FH, 2:1, í hreinum úrslitaleik um titilinn.

Veigar Páll fékk rautt spjald í stöðunni 1:0 fyrir Stjörnuna, en FH-ingum dugði jafntefli. Sigurmark Garðbæinga kom hins vegar í uppbótartíma sem tryggði liðinu titilinn eftir ótrúlegan leik.

„Þetta er fáránlegt, sérstaklega fyrir mig sem hefði getað verið þannig séð skúrkurinn. En þetta gerir það ennþá sætara fyrir mig. Ég missti mig í eina sekúndu og gerði hlut sem ég átti ekki að gera. Ég skammast mín fyrir þetta og það hefði setið lengi, lengi í mér ef við hefðum tapað leiknum. En við unnum og ég ætla að gleyma þessu sem fyrst,“ sagði Veigar Páll í samtali við mbl.is eftir leikinn.

Hann var skiljanlega í skýjunum með fyrsta titil félagsins í karlaflokki. „Ég er stoltur af því að hafa verið hluti af liðinu og á þessum tveimur árum síðan ég kom heim hef ég kynnst frábærum hlutum hérna og þetta lítur vel út ef maður spáir í framtíðina,“ sagði Veigar, en nánar er rætt  við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert