KR og Víkingur sýna Andra áhuga

Andri Adolphsson fór með ÍA upp í Pepsi-deildina í haust.
Andri Adolphsson fór með ÍA upp í Pepsi-deildina í haust. mbl.is/Ómar

Knattspyrnumaðurinn Andri Adolphsson kveðst í samtali við mbl.is sennilega vera á förum frá ÍA en þessi 22 ára, flinki kantmaður hefur leikið með meistaraflokki ÍA í fimm ár.

Andri átti sinn þátt í að koma Skagamönnum aftur upp í Pepsi-deildina í sumar en þar mun hann væntanlega ekki spila með þeim á næstu leiktíð.

„Ég á eitt ár eftir af samningi við ÍA en félagið hefur aldrei staðið í vegi fyrir því ef maður myndi vilja fara. Ég er að fara í háskólanám í bænum og hef rætt við Gulla [Gunnlaug Jónsson, þjálfara] um möguleikann á að færa mig,“ sagði Andri, sem kveðst ætla að taka ákvörðun um sína framtíð í næstu viku. Samkvæmt heimildum mbl.is hafa bæði KR og Víkingur R. sýnt áhuga á að fá Andra í sínar raðir en það vildi hann ekki staðfesta.

„Eins og staðan er núna eru mestar líkur á að ég fari í bæinn. Ég hef viljað ganga frá öllu varðandi Skagann áður en ég tek ákvörðun,“ sagði Andri. Fari svo að Andri yfirgefi ÍA, eins og allt bendir til, er ljóst að það gerir hann með nokkrum trega.

„Það væri ansi skrýtið en það er spurning hvort það sé komið að þeim tímapunkti hjá mér. Þetta er alls ekki auðvelt. Ég hefði viljað skilja við ÍA á góðum stað og það er alla vega betra að hafa náð að fara með liðinu upp í Pepsi-deildina,“ sagði Andri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert