Blikar unnu ÍBV - Kristinn ólöglegur?

Kristinn Jónsson skoraði seinna mark Breiðabliks.
Kristinn Jónsson skoraði seinna mark Breiðabliks. mbl.is/Ómar

Breiðablik sigraði ÍBV, 2:0, í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld en liðin mættust þá í Akraneshöllinni.

Elfar Freyr Helgason kom Blikum yfir um miðjan síðari hálfleik og Kristinn Jónsson, sem kom inná sem varamaður seint í fyrri hálfleiknum, tryggði sigurinn með marki á 80. mínútu.

Kristinn, sem var í láni hjá Brommapojkarna í Svíþjóð á síðasta ári, er ekki skráður í Breiðablik á vef KSÍ. Það skýrist væntanlega í fyrramálið hvort leikheimild fyrir hann hafi verið klár, en ef svo er ekki verður ÍBV úrskurðaður 3:0 sigur.

En sé allt með felldu og skýringin sú að ekki sé búið að skrá félagaskiptin þó þau hafi legið fyrir, er Breiðablik með 4 stig eftir tvo leiki í 1. riðli deildarinnar.

Fylkir er með 10 stig, HK 9, FH 9, Breiðablik 4, Þróttur R. 4, Víkingur Ó. 1, ÍBV og BÍ/Bolungarvík eru án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert