Arsenij með þrennu í markaleik

Skagamenn fögnuðu sigri á heimavelli sínum í dag.
Skagamenn fögnuðu sigri á heimavelli sínum í dag. Thorir O. Tryggvason.

Framherjinn Arsenij Buinickij skoraði þrennu fyrir Skagamenn þegar þeir lögðu Fjarðabyggð að   velli 4:3 í Akraneshöllinni í dag. Arsenij kom til ÍA í vetur frá KA þar sem hann skoraði 10 mörk í 21 leik í fyrrasumar.

Marko Andelkovic, nýr miðjumaður ÍA, skoraði fyrsta mark leiksins með aukaspyrnu utan af kanti. Arsenij bætti síðan við tveimur mörkum áður en Fjarðabyggð náði að minnka muninn niður í 3:2. Arsenij fullkomnaði þrennu sína skömmu síðar og forystan orðin 4:2. Það var síðan á lokaandartökum leiksins sem Fjarðabyggð náði að skora þriðja mark sitt í leiknum.

Með sigri í dag tryggðu Skagamenn sér toppsæti C-riðils Lengjubikarsins með 18 stig og komast því í 8-liða úrslitin. Fjarðabyggð lýkur leik í Lengjubikarnum með sjö stig.

ÍA tryggði sér sæti í Pepsideildinni í fyrra eftir að hafa fallið úr henni tímabilið 2013. Fjarðabyggð leikur hins vegar í 1. deild karla í sumar eftir að hafa unnið 2. deildina í fyrra með þónokkrum yfirburðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert