Eiður er leikmaður af annarri tegund

Eiður Smári í leiknum gegn Kasakstan á laugardag.
Eiður Smári í leiknum gegn Kasakstan á laugardag. AFP

Endurkoma Eiðs Smára Guðjohnsen í íslenska landsliðið vekur athygli víða um heim en Sky Sports-fréttastofan náði tali af Grétari Rafni Steinssyni fyrrverandi landsliðsmanni í knattspyrnu sem fór fögrum orðum um Eið.

Eiður hefur spilað vel fyrir Bolton á leiktíðinni og hefur spilað þar reglulega í ensku B-deildinni. Ekkert lát varð á góðri frammistöðu hans á knattspyrnuvellinum á laugardag þegar hann átti frábæran leik fyrir íslenska landsliðið sem vann Kasakstan 3:0 á laugardag. Þar skoraði Eiður fyrsta markið.

„Þetta er frábært fyrir hann. Hann er leikmaður af annarri tegund. Það var frábært að æfa með honum og spila með honum þar sem hann er hokinn af reynslu,“ sagði Grétar Rafn sem starfar nú sem tæknistjóri hjá Fleetwood Town í þriðju efstu deild á Englandi.

„Það er frábært fyrir stuðningsmennina í Championship-deildinni (B-deildinni) að sjá hann á vellinum og spila svona vel,“ sagði Grétar Rafn ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert