Sænskur framherji norður í land

Þór/KA hefur fengið til sín sænskan framherja.
Þór/KA hefur fengið til sín sænskan framherja. mbl.is/Skapti

Pepsi-deildarlið Þórs/KA hefur samið við sænskan framherja, Köru Lindberg, um að leika með liðinu á Íslandsmótinu í sumar.

Lindberg er 24 ára og hefur leikið með Kinaholms FF, Djurgödens IF, Dalsjöfors GOIF og Nittorps IK. Hún kemur til með að fylla skarð Katrínar Ásbjörnsdóttur sem hélt til Noregs í vetur og gekk til liðs við Klepp.

Kara komst í kynni við norðanliðið þegar Rebecca Johnson vinkona hennar spilaði með liðinu árið 2012. Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari liðsins, hafði samband við Rebeccu með leikmannamál í huga og þannig kom nafn Köru inn í myndina, en hún segist hafa verið í sambandi við félagið síðan í febrúar.

„Að fá að spila í útlöndum hefur alltaf verið minn draumur þannig að þegar Þór/KA hafði samband við mig var ég ekki í neinum vafa með hvað ég ætti að gera. En þar sem ég var búin að skrifa undir samning hjá núverandi liði mínu, Nittorps IK, þá tók þetta ferli aðeins lengri tíma,“ sagði Kara.

Jóhann Kristinn þjálfari sagði það mikinn feng  fyrir liðið að fá Klöru til Þór/KA í sumar.

,,Fyrir okkar unga og upprennandi lið er gríðarlega mikilvægt að fá reynslu inní hópinn og tel ég það víst að ungir og efnilegir spilarar fá með þessu nauðsynlega samkeppni um leið og liðið eflist og styrkist. Klara er flottur leikmaður og liðsmaður sem á eftir að gera Þór/KA að betra liði 2015“ sagði Jóhann í stuttu spjalli við heimasíðu Þórs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert