Þeir voru hættulegir

Rúnar Páll Sigmundsson.
Rúnar Páll Sigmundsson. Eva Björk Ægisdóttir

„Það er erfitt að koma hingað upp eftir,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnumanna, eftir 1:0 sigurinn á ÍA í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla.

„Ég tala nú ekki um þegar það blæs svona. Fyrsti leikur í Íslandsmóti á móti nýliðum er oft erfiður. Eftir leikinn er ég gríðarlega sáttur með okkar spilamennsku og þrjú stig,“ sagði Rúnar Páll.

Skagamenn létu til sín taka í síðari hálfleik og fengu tvö úrvals marktækifæri og segir Rúnar að Stjörnumenn hafi verið í smá basli.

„Ég var ánægður með stigin þrjú og við spiluðum feikilega vel í fyrri hálfleik og höfðum mikla yfirburði þar sem við hefðum getað sett fleiri mörk. Seinni hálfleikurinn var erfiðari, Skagamenn komu sterkir inn í seinni. Við vissum hvernig þeir myndu spila, með langa bolta fram og við vorum í erfiðleikum með það á móti sterkum vindi,“ sagði Rúnar og hélt áfram.

„Þeir voru hættulegir og auðvitað vill maður ekki sjá svona, menn eiga að taka út sína menn fyrir framan eigið mark en við lærum af þessu,“ sagði Rúnar.

Rúnar Páll hefur nú stýrt liði Stjörnunnar í 23 leikjum í Pepsi-deildinni og er ennþá ósigraður en tók þessari áminningnu blaðamanns af hógværð.

„Auðvitað er maður alltaf ánægður að vinna leiki og maður vill helst ekki tapa leikjum. Við förum á erfiðan útivöll næst á móti ÍBV, það verður gríðarlega erfitt og við þurfum að vera klárir í þann slag,“ sagði Rúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert