Förum virkilega sáttir heim

Halldór Orri Björnsson.
Halldór Orri Björnsson. mbl.is/Eva Björk

„Þetta er æðisleg tilfinning. Maður er búinn að bíða eftir þessu lengi og það er frábær tilfinning að vera kominn í þennan sterka hóp sem Stjarnan hefur. Það er frábært að byrja þetta Íslandsmót á góðum sigri á móti erfiðum andstæðinum. Þeir hefðu alveg getað jafnað í lokin og við förum virkilega sáttir heim,“ sagði Halldór Orri Björnsson leikmaður Stjörnunnar eftir 1:0 sigurinn á ÍA í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla.

Halldór Orri var tekinn af leikvelli á 79. mínútu en kappinn hefur verið að glíma við smávægileg meiðsli.

„Ég er búinn að vera smá stífur í rassinum, í vinstri rasskinninni. Ég var orðinn svolítið stressaður í gær fyrir þennan leik. Ég stífnaði upp rétt fyrir hálfeik og lét þá vita að hafa leikmann tilbúinn,“ sagði Halldór sem var á miðjunni í dag.

„Síðustu fjögur til fimm árin var ég vanalega á kantinum, einhverjir nokkrir leikir á miðjunni, en ég spilaði upp alla yngri flokka á miðjunni og þekki þetta því ágætlega,“ sagði Halldór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert