Sjö mörk og rautt í hasar á Akureyri

Tveimur leikjum var að ljúka í þriðju umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu. ÍBV vann þá seiglusigur á Þrótti og Þór/KA vann Aftureldingu í fjörugum leik fyrir norðan. Fylgst er með gangi mála í öllum leikjum kvöldsins í ÍSLENSKA BOLT­AN­UM Í BEINNI hér á mbl.is.

Eitt mark var skorað í Eyjum þar sem nýliðar Þróttar komu í heimsókn. Kristín Erna Sigurlásdóttir tryggði ÍBV öll stigin með marki á 35. mínútu, lokatölur 1:0 og ÍBV krækti þar með í sinn fyrsta sigur í sumar og hefur nú fjögur stig.

Það var heldur betur fjör á Akureyri þegar Þór/KA tók á móti Aftureldingu. Klara Lindberg kom norðankonum yfir snemma leiks eftir undirbúning Söruh Miller, en gestirnir úr Mosfellsbænum sem spáð var falli svöruðu heldur betur vel fyrir sig.

Stefanía Valdimarsdóttir jafnaði metin fyrir Aftureldingu á 27. mínútu eftir undirbúning Elise Kotsakis. Sú síðarnefnda kom þeim svo yfir níu mínútum síðar eftir mistök hjá Roxanne Barker í marki Þórs/KA. Á lokamínútu fyrri hálfleiks jafnaði Sarah Miller hins vegar fyrir Þór/KA eftir sendingu frá Kaylu Grimsley. 2:2 í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleik gerðist furðulegt atvik þegar Mist Elíasdóttir, markvörður Aftureldingar, fékk rautt spjald eftir að hafa fengið tvö gul á sömu mínútunni. Fyrst fékk hún tiltal, svo spjald og loks annað spjald og þar með rautt. Það var enginn leikmaður nálægt henni svo að öllum líkindum hefur það verið fyrir eitthvað sem hún hefur sagt. Blóðtaka fyrir Aftureldingu en hin sautján ára Gná Elíasdóttir, systir Mistar, kom í markið í hennar stað.

Norðankonur voru fljótar að nýta sér liðsmuninn og var Sarah Miller þá aftur á ferðinni þar sem hún lúrði á fjærstöng eftir undirbúning Söndru Maríu Jessen. Þær stöllur skiptu svo um hlutverk átta mínútum fyrir leikslok þegar Sandra skoraði eftir undirbúning frá Miller.

Það var svo Kayla Grimsley sem gulltryggði 5:2 sigur Þórs/KA undir lokin og er liðið nú með sjö stig eftir þrjá leiki. Afturelding er enn án stiga líkt og Þróttur.

Smellið á ÍSLENSKA BOLT­AN­N Í BEINNI til að fylgj­ast með öllu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert